Einar Sverrisson og Jón Þórarinn Þorsteinsson sáu til þess Selfoss slapp inn í átta liða úrslit Poweradebikarsins í handknattleik í kvöld eftir að liðið steig krappan dans gegn Þór í Höllinni á Akureyri. Einar skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins, 27:26, og Jón Þórarinn varði markskot Þórsara þegar 19 sekúndur voru eftir af leiktímanum.
Mikil spenna var í leiknum nær allan síðari hálfleikinn. Selfossliðið var fimm mörkum yfir í hálfleik, 16:11. Þórsarar komu eins og grenjandi ljón til leiks í síðari hálfleik og ekki voru liðnar tíu mínútur af leiktímanum þegar þeim hafði tekist að jafna metin.
Aron Hólm Kristjánsson kom Þór yfir þegar innan við tvær mínútur voru til leiksloka, 26:25. Sæþór Atlason jafnaði metin fyrir Selfoss þegar rétt rúm mínúta var eftir af leiktímanum. Þórsarar lögðu af stað í sókn og tóku síðan leikhlé þegar rúm hálf mínúta var eftir. Sóknin strandaði á Jóni Þórarni og lærisveinum Þóris Ólafssonar frá Selfossi tókst að merja sigur í hörkuleik, eins og áður er getið.
Kristján Páll Steinsson átti stórleik í marki Þórs og varði 22 skot. Allt annað var að sjá til Þórsliðsins að þessu sinni en gegn ÍR á laugardaginn. Það dugði þeim því miður ekki.
Jón Þórarinn varði afar vel í síðari hálfleik í marki Selfoss. Sölvi Svavarsson, sem nýverið endurskoðaði ákvörðun sína um að hætta, sýndi hvað í honum býr og skoraði sjö mörk.
Fyrri í kvöld vann Stjarnan lið Víðis, 33:16, í upphafsleik 16-liða úrslita Poweradebikarsins. Fleiri leikir verða á dagskrá annað kvöld.
Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 6, Jón Ólafur Þorsteinsson 5, Brynjar Hólm Grétarsson 4, Viðar Ernir Reimarsson 4, Þormar Sigurðsson 4, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Friðrik Svavarsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 22.
Mörk Selfoss: Sölvi Svavarsson 7, Sæþór Atlason 6, Einar Sverrisson 4, Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Alvaro Mallols Fernandez 2, Hannes Höskuldsson 2, Richard Sæþór Sigurðsson 2, Jason Dagur Þórisson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 10, Vilius Rasimas 8.
Víðismenn voru Stjörnunni engin fyrirstaða