Þórir Hergerisson þjálfari Evrópumeistarara Noregs í handknattleik kvenna segist ekki velta sér upp kórónuveirunni nú þegar hann og liðsmenn eru mættir í Ólympíuþorpið og eru tilbúnir í fyrsta leik á leikunum. „Ég er viss um að leikarnir verða öruggir. Við erum öll bólusett, förum reglulega í skimun og búum út af fyrir okkur og förum aðeins á æfingar og í leiki,“ segir Þórir m.a. í samtali við heimasíðu norska handknattleikssambandsins.
Norska landsliðið þekkir afar vel að búa í einangrun á stórmótum en það bjó við mjög strangar reglur á Evrópumeistaramótinu í Danmörku í janúar.
Þórir segir einbeitinguna vera á leikana og ná árangri á þeim. Draumurinn er að sögn Þóris að vinna gullverðlaun en fleiri eiga sér þann draum en norska landsliðið.
Norska landsliðið hafnaði í þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Ríó fyrir fimm árum en vann gullverðlaun undir stjórn Þóris á leikunum í London 2012.
Fyrsti leikur norska landsliðsins verður á sunnudagsmorgun að íslenskum tíma gegn Suður Kóreu. Eftir það taka við leikir annan hvern dag, gegn Angóla, Svartfjallalandi, heimsmeisturum Hollands og Japan. Fjögur efstu lið riðilsins taka þátt í átta liða úrslitum ásamt fjórum efstu liðum úr hinum riðli keppninnar en lið 12 þjóða taka þátt og voru þau dregin í tvo sex liða riðla.
Norska landsliðið hefur verið saman við undirbúning síðasta mánuðinn, lengst af í Frakklandi.