- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

​​​​​Einn nýliði og fjórir frá Selfossi á ferð í Þýskalandi

Selfyssingarnir og landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Teitur Örn Einarsson. Mynd/Thelma
- Auglýsing -

Það verður vinstrihandarskyttan Teitur Örn Einarsson sem ríður á vaðið, er baráttan um meistaratitilinn í handknattleik í Þýskalandi, Bundesligan, hefst með tveimur leikjum í kvöld, fimmtudaginn 24. ágúst. Teitur Örn og samherjar hans hjá Flensburg Handewitt taka þá á móti nágrannaliðinu HSV Hamburg í Flens-Arena, sem tekur 6.300 áhorfendur. Teitur Örn er að hefja þriðja keppnistímabil sitt hjá Flensborgar-liðinu; hefur leikið 57 leiki og skorað 105 mörk. Hann skoraði ekki nema 34 mörk í 32 leikjum á síðasta tímabili; fékk ekki mörg tækifæri.

Það verður örugglega mikil stemning í Flens-Arena í Flensburg, þegar meistarabaráttan hefst í kvöld, er SV Hamburg kemur í heimsókn.

 Akureyringurinn Heiðmar Felixson verður einnig í sviðsljósinu, en hann er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf, sem sækir Erlangen heim í Arena Nürnberg, sem tekur 8.308 áhorfendur. Þess má geta að Ólafur Stefánsson var aðstoðarþjálfari Erlangen, en sagði starfi sínu lausu fyrir stuttu er Spánverjinn Raúl Alonso var færður til í starfi og Hartmunt Mayerhoffen ráðinn þjálfari. Ólafi fannst framhjá sér gengið; tók poka sinn og gekk út.

 14 Íslendingar á ferðinni

 Ballið er að byrja í sterkustu handknattleiksdeild heims og verður blásið í herlúðra um allt Þýskaland. 91 Íslendingur hefur leikið í „Bundesligunni“ frá stofnun deildarinnar 1977 og verða fjórtán íslenskir leikmenn á ferðinni í Bundesligunni (1. deild) í vetur og fjórir þjálfarar.

Jennifer Kettemann framkvæmdastjóri Rhein-Nekcar Löwen, Arnór Snær Óskarsson og Arnór Snær Óskarsson og Oliver Roggisch. Mynd/Rhein-Neckar Löwen

 Einn nýliði stígur fram á stóra sviðið og hafa þá 92 Íslendingar leikið í 1. deildinni. Það er Valsmaðurinn Arnór Snær Óskarsson, sem er leikmaður með Rhein-Neckar Löwen. Fyrir hjá liðinu er varnartröllið og Valsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason. 

RN Löwen: Ýmir Örn Gíslason, Arnór Snær Óskarsson.
Leipzig: Rúnar Sigtryggsson, Viggó Kristjánsson, Andri Már Rúnarsson.
Magdeburg: Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason.
Melsungen: Arnar Freyr Arnarsson, Elvar Örn Jónsson.
Bergischer HC: Arnór Þór Gunnarsson, aðstoðarþjálfari.
Gummersbach: Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari, Elliði Snær Viðarsson, Hákon Daði Styrmisson.
Flensburg: Teitur Örn Einarsson.
Balingen-Weilstetten: Oddur Gretarsson, Daníel Þór Ingason.
Hannover-Burgdorf: Heiðmar Felixson, aðstoðarþjálfari.

 Tveir leikmenn koma á ný í deildina, eftir stutt hlé. Janus Daði Smárason kom til Magdeburg frá norska liðinu Kolstad, en hann lék með Göppingen 2021-2022 og Andri Már Rúnarsson  gekk til til liðs við SC DHfK Leipzig frá Haukum, en hann lék með Stuttgart 2021-2022.

Andri Már Rúnarsson t.v. ásamt Karsten Günther framkvæmdastjóra Leipzig-liðsins. Mynd/Leipzig

 Pabbi Andra Más, Rúnar Sigtryggsson, er þjálfari Leipzig, sem hefur ekki tapað leik á undirbúningstímabilinu. Landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson leikur með liðinu, sem fær Füchse Berlín í heimsókn á mánudaginn í Arena Leipzig, sem tekur 6.327 áhorfendur. Til stendur að byggja stærri keppnishöll í Leipzig á næstu árum.

 Það verður hlutverk Janusar Daða að fylla skarð Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, sem er meiddur og leikur ekki aftur með Magdeburg fyrr en á nýju ári. Ómar Ingi Magnússon er að ná sér eftir erfið meiðsli. Magdeburg mætir Wetzlar á útivelli á morgun, föstudagskvöld.

 Bergischer, sem Arnór Þór Gunnarsson er aðstoðarþjálfari hjá, mætir nýliðum Eisenach á útivelli, á laugardaginn.

 Melsungen, sem Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson leika með, fær Göppingen í heimsókn.

Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach. Mynd/Nastasja Kleinjung / VfL Gummersbach

 Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari ársins 2023 í Bundesligunni, og lærisveinar hans hjá Gummersbach taka á móti Lemgo í Schwalbe-Arena, sem rúmar 4.132 áhorfendur. Með Gummersbach leika landsliðsmennirnir Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson.

Balingen-Weilstetten, sem endurheimti sæti sitt í 1. deildinni í vor eftir árs fjarveru, tekur á móti meisturum THW Kiel í Sparkassen-Arena í Balingen í suður hluta Þýskalands á sunnudaginn. Uppselt er á leikinn. Oddur Gretarsson og Daníel Þór Ingason leika með Balingen. Oddur hefur verið hjá félaginu frá 2017 en Daníel Þór síðustu tvö ár.

 Andri Már er yngstur

 Andri Már Rúnarsson er yngsti Íslendingurinn sem verður á ferðinni í Bundesligunni, 21 árs, en næst yngstur er Arnór Snær Óskarsson, 23 ára. Oddur Gretarsson leikmaður nýliða Balingen-Weilstetten er elstur, 33 ára. Viggó er næst elsti íslenski leikmaðurinn, 29 ára.

Voru flestir 17

 Flestir Íslendingar á einu keppnistímabili í deildinni voru sautján 2009-2010, en á þremur tímabilum eftir það, 2014-2015, 2017-2018 og 2018-2019, léku aðeins fimm leikmenn í deildinni.

 Fjórir frá Selfossi

 Af þessum 12 leikmönnum sem leika nú í Bundesligunni, koma fjórir frá Selfossi. Teitur Örn (24 ára), Janus Daði (28), Ómar Ingi (26) og Elvar Örn (25 ára).

 Það þykir saga til næsta smábæjar í Þýskalandi að fjórir leikmenn frá 10 þúsund manna bæ á Íslandi; Selfoss/Árborg, séu í baráttunni í erfiðustu handknattleiksdeild heims!

 Við könnum nánar andrúmsloftið í Þýskalandi á næstu dögum; hvaðan liðin 18 í Bundesligunni koma, kynnum okkur aðstöðu þeirra og stemningu, en handknattleikur er gríðarlega vinsæll í Þýskalandi.  En það má með sanni segja að handknattleiksmenn í Þýskalandi séu „sveitamenn!“

Auf Wiedersehn.

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Tengdar fréttir:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -