- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekkert grín að eiga við Valsmenn

Teitur Örn Einarsson, leikmaður Flensburg. Mynd/Flensburg Handewitt
- Auglýsing -

„Ég er er ánægður með okkar frammistöðu í leiknum því það er alls ekkert grín að mæta Valsliðinu, ekki síst í þessari stemningu. Þeir hlaupa mikið, eru mjög vel skipulagðir og bara mjög erfiðir viðureignar,“ sagði Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson markahæsti og besti leikmaður þýska liðsins í Flensburg í sigurleik liðsins á Val, 37:32, í Evrópudeildinni í handknattleik í gærkvöld í Origohöllinni.

Sóknarleikurinn var góður

„Mér fannst sóknarleikurinn vera góður hjá okkur, sex á sex. Í þeirri stöðu vorum við með stjórn leik Valsliðsins. Strax eftir leik þá er ég ekki með á hreinu hversu mörg mörk Valsarar skoruðu eftir hraðaupphlaup og seinni bylgjuna. Tilfinning mín er sú að okkur hafi tekist nokkuð vel að halda aftur af Valsliðinu í þeim efnum.“

Stigin skipta mestu máli

„Uppstilltur varnarleikur okkar var undir væntingum. Í honum tókst okkur ekki eins vel upp og við vildum. Yfirhöfuð er ég og liðið sátt við niðurstöðuna. Sigurinn féll okkur í skaut og við förum heim með tvö stig í farteskinu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá skipta stigin mestu máli. Auk þess fengum við skemmtilega ferð og leik í frábærri umgjörð sem rétt er að hrósa Valsmönnum fyrir. Ég hef aldrei áður leikið í þessu húsi fyrir framan fullar stúkur af fólki,“ sagði Teitur Örn sem nýtti tækifæri sitt afar vel og lagði m.a. grunn að fjögurra til fimm marka forskoti Flensburg í upphafi síðari hálfleiks. Forskoti sem liðið hélt og vel það til leiksloka.

Johannes Golla og Teitur Örn Einarsson í vörn Flensburg í gærkvöld. Mynd/Baldur Þorgilssson

Mikil samkeppni

„Samkeppnin er mikil og þess vegna verður maður að sýna hvað maður getur þegar tækifæri gefst með von um að fá ennþá fleiri mínútur í næsta leik,“ sagði Teitur Örn sem hefur fengið fleiri tækifæri upp á síðkastið meðan Norðmaðurinn Magnus Rød jafnar sig eftir að hafa hlotið heilahristing. Óhætt er að segja að Teitur Örn nýtt tækifærið á eftirminnilegan hátt að þessu sinni.


Teitur Örn er uppalinn á Selfossi og lék með liði félagsins fram til ársins 2018 að hann hélt út í atvinnumennsku í handknattleik. Fjölmennur hópur Selfyssinga var á leiknum í Origohöllinni í gærkvöld og fagnaði hann ákaft þegar Teitur Örn var kynntur til sögunnar áður en flautað var til leiks.

Yndislegir Selfyssingar

„Það var yndislegt að sjá hvað Selfyssingar standa alltaf frábærlega við bakið á manni, sama hvar maður er. Að hafa fjölskylduna og vinina á áhorfendapöllunum gefur manni aukakraft,“ sagði Teitur Örn Einarsson.


Flensburgliðið hélt af landi brott í morgun. Næsti leikur verður við Stuttgart í Flens-Arena á sunnudaginn í þýsku 1. deildinni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -