- Auglýsing -
- Auglýsing -

EM18: Framundan eru spennandi dagar

Mynd frá upphitun fyrir kappleika á EM. Ljósmynd/MKJ
- Auglýsing -

„Svíar eru með hörkulið en við ætlum okkur ekkert annað en sigur á þeim,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari 18 ára landsliðs karla þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í dag í aðdraganda fyrsta leiks íslenska liðsins í riðlakeppni átta liða úrslita Evrópumótsins í Podgorica í Svartfjallalandi.

Átta liða úrslitin hefjast í fyrrramálið. Lið Íslands og Svíþjóðar, sem unnu bæði alla sína leiki í riðlakeppninni, mætast klukkan 10 árdegis. Eins og komið hefur fram á handbolti.is þá leikur íslenska liðið við Spánverja í riðlakeppni átta liða úrslita á þriðjudaginn og við norska landsliðið á fimmtudaginn.

Átta liða úrslit fara fram í tveimur fjögurra liða riðlum. Ísland, Svíþjóð, Spánn og Noregur eiga sæti í öðrum en í hinum eru landslið Danmerkur, Serbíu, Ungverjalands og Þýskalands. Liðin átta verða án stiga í upphafi, þ.e. taka ekki með sér stig úr fyrri leikjum á mótinu. Að lokinni riðlakeppninni verður krossspil á milli riðlanna á föstudaginn. Tvö efstu liðin úr hvorum riðli leika til undanúrslit og tvö þau neðri leika í krossspili um sæti fimm til átta. Leikið verður um sæti eitt til átta á sunnudaginn 18. ágúst. 

Viljum bera okkur saman við þá bestu

„Nú erum við að fara í hörkukeppni eins og við ætluðum okkur þegar við fórum af stað. Við viljum bera okkur saman við þau bestu og djöflast aðeins í þeim,“ sagði Heimir og undirstrikar að einbeiting íslenska liðsins sé á viðureignina við Svía áður en lengra verður haldið. Einnig eru menn staðráðnir að gera betur en í lokaleik riðlakeppninnar við Svartfellinga. Þótt sá leikur hafi unnist, 25:22, þá var frammistaðan lengst af ekki nægilega góð, að mati Heimis og ekki vænleg til árangurs í 8-liða úrslitum á Evrópumóti.

Það sem við viljum gera

„Framundan eru spennandi dagar. Við höfum farið vel yfir leikinn við Svía. Næst er bara að stinga sér til sunds. Þetta verður töff vika en vitanlega það sem strákarnir vilja gera, leika handbolta og mæta þeim bestu,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðs karla. Hinn þjálfari liðsins er Patrekur Jóhannesson auk þess sem Magnús Ingi Stefánsson er með markverðina á sinni könnu.

Leikjadagskrá Íslands í riðlakeppni átta liða úrslita:
Mánudagur 12. ágúst.
Ísland - Svíþjóð, kl. 10.
Þriðjudagur 13. águst.
Ísland - Spánn, kl. 12.30.
Fimmtudagur 15. ágúst.
Ísland - Noregur, kl. 12.30.
- Leiktímar eru miðaðir við klukkuna á Íslandi.
- handbolti.is stefnir á að vera með textalýsingu frá leikjum Íslands.

EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir

EM18: Fyrsti leikur við Svía á mánudag, mæta einnig Spáni og Noregi

Yngri landslið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -