Hinn þrautreyndi handknattleiksþjálfari, Ágúst Þór Jóhannsson, og annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna segir að sú staðreynd að U19 ára landsliðið hafi tryggt sig inn á þriðja stórmót A-liða (HM20 ára á næsta ári) í röð sé afar stórt og mjög mikilvægur áfangi fyrir kvennahandknattleik á Íslandi. Með þessu sé ákveðinn tónn sleginn fyrir framtíðina um leið og undirstrikaður er sá vöxtur sem ríkir í kvennahandknattleik á Íslandi. Afrekið sé stærra og meira en menn geri sér grein fyrir og skipti íþróttina á landinu miklu máli til framtíðar.
Ekki gerst áður
„Niðurstaðan af mótinu er sú að liðið tryggði sér þátttökurétt á þriðja stórmót A-liða í röð sem er stórbrotið afrek sem ég man ekki til að hafi gerst í sögunni kvennamegin hjá íslensku landsliði. Þessi hópur er gríðarlega öflugur. Stelpurnar uxu eftir því sem á mótið leið. Að okkur tækist að tryggja þátttökurétt á HM er stórkostlegt og alls ekkert sjálfgefið,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson í samtali við handbolta.is í gær.
EMU19: Léku einn sinn besta leik þegar mest á reyndi
Árangurinn hafi ekki komið að sjálfu sér eða sé tilviljun, segir Ágúst Þór. Leikmenn hafi lagt hart að sér til þess að ná þessum árangri og þannig þróast áfram eftir að hafa náð afar góðum árangri á mótum yngri landsliða 2021 og 2022.
𝐻𝑎𝑛𝑑𝑏𝑎𝑙𝑙 + 𝑓𝑎𝑛𝑠 = ❤️
— EHF EURO (@EHFEURO) July 15, 2023
Iceland celebrated with the fans after they secured their ticket to next year's World Championship 🎟#followthefuture pic.twitter.com/XzZmTHDwuu
Lengja ferilinn
„Þær leggja mikið á sig, eru vinnusamar og duglegar og hafa uppskorið í samræmi við það,“ segir Ágúst Þór. „Að komast inn á þriðja stórmót A-liða og framlengja þar með unglingalandsliðsferilinn um eitt ár er gríðarlega mikilvægt og risastórt skref fyrir framtíð íslensks kvennahandbolta,“ sagði Ágúst Þór sem lengi hefur þjálfað kvennalið, jafnt félagslið sem landslið.
EMU19: Stúlkurnar kjöldrógu Serba og tryggðu sér HM-sæti
Stoltur af öllum hópnum
„Frá því að ég tók við þjálfun á þessum hóp hef ég verið gríðarlega stoltur af þeim sem leikmönnum og liði. Ekki er síðri hópurinn sem fylgir honum, foreldrar og forráðamenn, frábærir, hvetjandi og uppbyggilegir sem skiptir miklu mál. Það eru hrein forréttindi fyrir okkur í þjálfarateyminu að fá að vinna með þessum leikmannahópi ár eftir ár,“ sagði Ágúst Þór og bætir við.
Fleiri fylgja í kjölfarið
„Ég hef lengi þjálfað kvennalið og bý yfir miklum metnaði fyrir að sá vöxtur sem staðið hefur yfir undanfarin ár haldi áfram. Ég er stoltur að taka þátt í þessu og leggja mitt lóð á vogarskálina við að tryggja Íslandi áframhaldandi veru á meðal A-liða í heiminum. Ég er sannfærður um að fleiri kvennalið eiga eftir að gera það gott á næstu árum,“ sagði Ágúst Þór.
Létu ekki slá sig út af laginu
Íslenska liðið hafnaði í 13. sæti á mótinu eftir að hafa unnið þrjá síðustu leiki sína, gegn Króatíu, Norður Makedóníu og Serbíu, allt þjóðir sem íslensk kvennalandslið hafa í gegnum tíðina átt í erfiðleikum með. Leikmenn íslenska landsliðsins létu það ekki slá sig út af laginu að tapa fjórum fyrstu leikjunum á mótinu og sjá þar með draum um að hafna ofar renna sér úr greipum. Leikmenn þéttu raðirnar, unnu að því markmiði sem hægt var að ná úr því sem komið var, auk þess að vinna sig í gegnum áfall vegna meiðsla Tinnu Sigurrósar Traustadóttur.
EMU19: Úrslitaleikir um helgina
Einn slakur leikur af sjö
„Okkar stóra markmið fyrir mótið var að vinna okkur sæti á HM. Vissulega dreymdi okkur um að vera örlítið ofar en í þrettánda sæti. Þegar öllu er á botninn hvolft þá áttum við aðeins einn slakan leik af sjö í mótinu. Það var viðureignin við Portúgal. Rúmeníuleikurinn var erfiður gegn heimaliði í upphafsleik móts. Þýskalandsleikurinn var frábær þótt okkur tækist ekki að halda út sem varð þess valdandi að við töpuðum með einu marki eftir að hafa verið nærri að jafna metin á síðustu sekúndu. Ég er stoltur af liðinu, teyminu í kringum það og öllum stuðningsmönnum okkar,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í gær.
Hér fyrir neðan eru nokkra myndir frá leiknum í gær. Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri.
Myndir/Mihai Nitoiu
Markverðir: Elísa Helga Sigurðardóttir, Haukum. Ethel Gyða Bjarnasen, HK. Aðrir leikmenn: Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, HK. Brynja Katrín Benediktsdóttir, Val. Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum. Elísa Elíasdóttir, ÍBV. Embla Steindórsdóttir, HK. Hildur Lilja Jónsdóttir, KA/Þór. Inga Dís Jóhannsdóttir, HK. Katrín Anna Ásmundsdóttir, Gróttu. Lilja Ágústsdóttir, Val. Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Haukum. Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Haukum. Thelma Melsteð Björgvinsdóttir, Haukum. Tinna Sigurrós Traustadóttir, Selfossi. Valgerður Arnalds, Fram. Starfsfólk: Ágúst Jóhannsson, þjálfari. Árni Stefán Guðjónsson, þjálfari. Jóhann Ingi Guðmundsson, markmannsþjálfari. Þorvaldur Skúli Pálsson, sjúkraþjálfari. Brynja Ingimarsdóttir, farastjóri / liðsstjóri. Guðríður Guðjónsdóttir, fararstjóri / liðsstjóri.