Óðinn Þór Ríkharðsson fór enn og aftur á kostum með Kadetten Schaffhausen í kappleik í kvöld þegar liðið vann slóvakísku meistarana Tatran Presovn 38:30, í A-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik í Schaffhausen í Sviss. Óðni Þór héldu engin bönd. Hann skoraði 13 mörk í 15 skotum. Leikmenn Tatran Presov stóðu ráðalausir gagnvart hinum eldfljóta og leiftursnögga Íslendingi sem lék þá grátt hvað eftir annað.
Besta skotnýtingin
Óðinn Þór hefur þar með skorað 67 mörk í níu leikjum í keppninni og með 79,8% skotnýtingu. Af 30 markahæstu leikmönnum Evrópudeildarinnar er Óðinn Þór með lang bestu skotnýtinguna.
Sem stendur er Óðinn Þór í öðru sæti á lista yfir markahæstu leikmenn keppninnar. Úkraínumaðurinn Ihor Tuchenko er markahæstur með 82 mörk í 10 leikjum fyrir HC Motor.
Kadetten hafnaði í þriðja sæti í A-riðli og mætir sænsku meisturunum Ystads IF HF í 16-liða úrslitum 21. og 28. mars. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten sem er svissneskur meistari.
A-riðill:
Veszprémi KKFT – Benfica 26:35 (14:17).
Göppingen – Montpellier 27:25 (14:11)
Kadetten Schaffhausen – Presov 38:30 (20:15).
– Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 13 mörk fyrir Kadetten. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten.
Lokastaðan í A-riðli:
Montpellier | 10 | 8 | 0 | 2 | 330:295 | 16 |
Göppingen | 10 | 8 | 0 | 2 | 323:274 | 16 |
Kadetten | 10 | 7 | 0 | 3 | 319:299 | 14 |
Benfica | 10 | 4 | 0 | 6 | 297:289 | 8 |
Presov | 10 | 2 | 0 | 8 | 279:319 | 4 |
Veszprémi KKFT | 10 | 1 | 0 | 9 | 282:354 | 2 |