- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er orðinn svolítill Íslendingur – vantaði nýja áskorun

Phil Döhler markvörður fór hamförum í marki Karlskrona í gærkvöld. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Það er spennandi að prófa eitthvað nýtt, flytja í annað land, leika í annarri deild og mæta nýjum andstæðingum. Þetta er það sem mér finnst ég þurfa á að halda eftir fjögur ár hjá FH, það er að takast á við nýja áskorun,“ sagði þýsku markvörðurinn Phil Döhler í samtali við handbolta.is. Döhler hefur skrifað undir tveggja ára samning við HK Karlskrona, nýliða sænsku úrvalsdeildarinnar. Döhler flytur til Svíþjóðar í byrjun júlí.

Getur hugsað sér að koma aftur

„Ég velti fyrir mér fleiri kostum sem mér stóðu til boða, bæði á Íslandi og utan landsins en komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að stíga skrefið út fyrir Ísland, takast á við aðrar aðstæður og sjá hvernig mér gengur,“ sagði Döhler sem hefur líkað mjög vel dvölin á Íslandi og segist vel geta hugsað sér að flytja til baka. Hann sé orðinn svolítill Íslendingur. Sér hafi liðið mjög vel, bæði hjá FH og eins í Áslandsskóla þar sem hann vinnur sem skólaliði út kennsluárið.

Jón Bjarni Ólafsson og Phil Döhler. Mynd/J.L.Long

Vantar stóran titil með FH

„Ég þakka FH og FH-ingum kærlega fyrir mjög góð fjögur ár. Allir tóku mjög vel á móti mér frá fyrsta degi. Eina sem vantar er að hafa unnið einn stóran titil með FH á þessum árum. Ég er ekki að fara frá félaginu vegna þess að mér líður illa heldur vegna þess að mig langar að takast á við nýjar áskoranir og þróast áfram sem markvörður,“ sagði Döhler og bætir við að það verði ekki síður erfitt að kveðja, börnin og starfsfólkið í Áslandsskóla.

Allir tóku vel á móti mér

„Ég vil þakka starfsfólkinu í Áslandsskóla og börnunum sem ég hef kynnst. Allir hafa tekið mér mjög vel. Það verður ekki auðvelt að kveðja krakkana,“ sagði Döhler sem náð hefur ótrúlega góðum tökum á íslensku á fjórum árum.

„Ég get haldið áfram að tala íslensku úti í Svíþjóð því tveir Íslendingar verða með mér í Karlskrona-liðinu, Óli og Þorgils,“ sagði Döhler léttur í bragði en samherjar hans verða m.a. Ólafur Andrés Guðmundsson og Þorgils Jón Svölu Baldursson.

Talsverð viðbrigði

Döhler segir viðbrigðin hafa verið talsverð að koma til Íslands frá Magdeburg í Þýskalandi fyrir fjórum árum. Hann hafi þá aldrei áður farið að heiman frá fjölskyldu sinni um lengri tíma.

„Til viðbótar er annað hugarfar til margra hluta hér á landi en þar sem ég ólst upp. Það var mikil breyting fyrir mig að koma hingað til lands 24 ára gamall. En mér líkaði strax vel hér á landi. Fékk stórt hlutverk sem aðalmarkvörður FH og reyndi að læra hratt. Segja má að ég hafi lært og þroskast mikið á fjórum árum, bæði sem markvörður og sem persóna.“

Phil Döhler með augun á Theodóri Sigurbjörnssyni leikmanni ÍBV. Mynd/J.L.Long

Hef tekið framfaraskref

„Ég hef tekið skref fram á við í handknattleiknum og nú langar mig að bæta einu skrefi við,“ segir Döhler sem sér fram á spennandi verkefni með nýliðum sænsku úrvalsdeildarinnar en hann flytur til Svíþjóðar í byrjun júlí. Málin skýrist betur á næstu dögum þegar hann fer út til Karlskrona og ræðir við forráðamenn félagsins og skoðar aðstæður.

Spennandi verkefni

„Þetta er spennandi lið hjá Karlskrona. Umgjörðin virðist góð og metnaðurinn er mikill við að byggja upp gott lið. Ég hlakka til að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Phil Döhler markvörður í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -