- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum komnar til þess að gera betur

Sunna Jónsdóttir er þrautreynd landsliðskona. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við erum bara spenntar fyrir síðari leiknum og teljum tækifæri vera fyrir hendi,“ sagði Sunna Jónsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag þar sem hún er stödd í Búdapest í Ungverjalandi. Á morgun verður Sunna í eldlínunni með stöllum sínum í íslenska landsliðinu í síðari umspilsleiknum við Ungverja um sæti á HM.


Leikurinn á morgun sem fram fer í Érd Arena rétt utan við Búdapest hefst klukkan 16.15 að íslenskum tíma.

Ef íslenska landsliðið vinnur leikinn með fjögurra marka mun verður staðan jöfn eftir tvo leiki. Þá ráðast úrslit í vítakeppni.

Fimm marka sigur tryggir íslenska liðinu sæti á HM.

Verðum að laga sóknarleikinn

„Við erum komnar til þess að gera betur en í fyrri leiknum. Tapið þá var svekkjandi því við eigum fullt erindi í ungverska liðið. Okkur tókst að eiga í fullu tré við þær í varnarleiknum en verðum að laga aðeins sóknarleikinn. Við skoruðum aðeins 21 mark, þar af aðeins eitt mark á 16 mínútna kafla í síðari hálfleik,“ sagði Sunna ennfremur.

Sunna Jónsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir ásamt öðrum liðsmönnum íslenska landsliðsins eru tilbúnar í slaginn við Ungverja á morgun. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Ungverska landsliðið vann fyrri viðureignina með fjögurra marka mun, 25:21, á Ásvöllum.

Áfram á okkar vegferð

„Við ætlum einnig að halda áfram á okkar vegferð sem við höfum verið á sem lið að undanförnu. Um leið ætlum við að halda í jákvæðnina, gera vel og bæta í,“ sagði Sunna sem segir fullt sjálfstraust vera innan hópsins.


„Við erum fullar vilja til þess að gera enn betur og horfa fram á veginn í stað þess að svekkja okkur á því sem fór úrskeiðis á laugardaginn. Við erum lið í uppbyggingu og höldum áfram að vinna í okkar málum. Þessi undankeppni er bara hluti af framtíðinni, eftir HM tekur við undankeppni EM 2024. Þangað setjum við stefnuna,“ sagði Sunna.


Reiknað er með erfiðum leik í Érd Arena sem rúmar 2.200 áhorfendur. Talið er að hún verði þéttsetin eða jafnvel að uppselt verði enda brennandi áhugi fyrir handknattleik í Ungverjalandi eins og á Íslandi.

Við verðum að hitta á góðan leik

Höldum í gleðina og jákvæðnina

„Það er bara gaman að fá að upplifa það að leika fyrir framan fullt hús af áhorfendum. Við höldum í gleðina og jákvæðnina. Hópurinn er frábær og er skipaður metnaðarfullum leikmönnum sem vilja gera betur með hverjum degi sem líður. Við erum að klífa upp stigann,“ sagði Sunna Jónsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.

Sömu leikmenn taka þátt síðari leiknum og og léku fyrri viðureigninni við Ungverjar á síðasta laugardag.
Markverðir:
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Ringkøbing Håndbold (42/1).
Hafdís Renötudóttir, Fram (43/2).
Aðrir leikmenn:
Andrea Jacobsen, EH Aalborg (35/58).
Díana Dögg Magnúsdóttir, BSV Sachsen Zwickau (37/43).
Hildigunnur Einarsdóttir, Val (93/103).
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, ÍBV (40/77).
Katrín Tinna Jensdóttir, Volda handball (10/2).
Lilja Ágústsdóttir, Val (7/2).
Perla Ruth Albertsdóttir, Fram (31/46).
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, KA/Þór (114/243).
Sandra Erlingsdóttir, TuS Metzingen (19/79).
Steinunn Björnsdóttir, Fram (45/55).
Sunna Jónsdóttir, ÍBV (74/56).
Thea Imani Sturludóttir, Val (61/102).
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Val (31/16).
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram (120/350).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -