FH-ingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Tatran Presov með fimm marka mun í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla í kvöld, 35:30.
Leikurinn var sá fyrri af tveimur milli liðanna en báðar viðureignir fara fram í Tatran Handball Arena í Slóvakíu. Síðari leikurinn verður á morgun og hefst klukkan 19 að íslenskum tíma.
Aron Pálmarsson fór ekki með FH-liðinu til Slóvakíu. Aron tognaði á kálfa síðla leiks Hauka og FH í átta liða úrslitum Powerade-bikarsins á mánudagskvöldið. Ágúst Birgisson tók heldur ekki þátt í leiknum vegna tognunar í lærvöðva.
FH var með yfirhöndina nær allan fyrri hálfleikinn. Mestur varð munurinn fjögur mörk en þegar dæmið var gert upp eftir 30 mínútur var staðan 15:12, FH í vil. Framan af síðari hálfleik var FH með þriggja til fjögurra marka forskot. Ellefu mínútum fyrir leikslok tókst Presov að jafna metin, 25:25, og komast yfir skömmu síðar, 27:26. Leikmenn FH voru ekkert á þeim buxunum að gefa eftir. Þeir skoruðu þrjú mörk í röð og héldu forskoti til leiksloka. Meðal annas skoraði FH fjögur síðustu mörkin.
Daníel Matthíasson var öflugur í vörninni auk þess sem Daníel Freyr Andrésson var vel með á nótunum í markinu. Fleiri leikmenn sýndu sínar allra bestu hliðar gegn sterku liði slóvakísku meistaranna sem lögðu Aftureldingu í tvígang ytra í 32-liða úrslitum.
Mörk FH: Jakob Martin Ásgeirsson 6, Einar Bragi Aðalsteinsson 6, Ásbjörn Friðriksson 5, Birgir Már Birgisson 4, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Einar Örn Sindrason, 3, Jóhannes Berg Andrason 3, Daníel Matthíasson 2, Jón Bjarni Ólafsson 2, Símon Michael Guðjónsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 10, 27,8%.
Sem fyrr segir hefst síðari leikur FH og Tatra Presov klukkan 19 á morgun, laugardag.