- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fjögur karlalið taka þátt í Evrópukeppni

Íslandsmeistarar ÍBV í handknattleik karla 2023. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

Íslensku liðin fjögur sem áttu rétt á að skrá sig til leiks í Evrópumótum félagsliða í karlaflokki hafa sent inn þátttökutilkynningu. Frestur rennur út í dag til þess að skrá lið til þátttöku. Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ staðfesti við handbolta.is í morgun að liðin fjögur hafi þegar verið skráð til leiks.

Liðin fjögur eru: Íslandsmeistarar ÍBV, deildarmeistarar Vals, bikarmeistarar Aftureldingar og FH sem varð í öðru sæti í Olísdeild karla, deildarkeppninni.

Öll skráð í sömu keppni

Liðin eru öll skráð til leiks í Evrópubikarkeppnina. Íslandsmeistarar ÍBV, sem áttu rétt á að taka þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar, kjósa að veðja frekar á Evrópubikarkeppnina. Gríðarlegur kostnaður fylgir þátttöku í Evrópudeildinni, ef lið komast í gegnum forkeppnina, auk þess sem mæta verður mikið strangari kröfum en í Evrópbikarkeppninni.

Bikarmeistarar Aftureldingar geta kætt stuðningsmenn sína með þátttöku í Evrópukeppni í haust. Mynd/Raggi Óla

Síðar í þessum mánuði skýrist á hvaða stigum íslensku liðin koma inn í Evrópubikarkeppnina. Handknattleikssamband Evrópu sendir frá sér upplýsingar þegar allar umsóknir hafa verið flokkaðar og liðum raðað niður eftir styrkleikaflokkum.

Síðast með fyrir 6 árum

ÍBV, Valur og FH hafa verið reglulegir þátttakendur í Evrópukeppni félagsliða á síðustu árum. Sex ár eru hinsvegar liðin síðan Afturelding var síðast með. Afturelding var skráð til leiks haustið 2020 en varð að gefa þátttökuna upp á bátinn þegar covid19 gekk yfir eins og eldur í sinu.

Nokkuð er síðan að skráningafrestur rann út í Evrópukeppni kvenna. Íslandsmeistarar Vals hafa m.a. sett stefnuna á undankeppni Evrópudeildar kvenna í fyrsta skipti.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -