- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hef hreinlega ekki ennþá áttað mig á þessu öllu

Evrópubikarmeistarar Vals fagna eftir að hafa tekið við sigurlaunum sínum. Ljósmynd/ EHF / Eurokinissi Sports.
- Auglýsing -

„Ég held að ég hafi hreinlega ekki áttað mig fullkomlega á þessu ennþá, en svo sannarlega er þetta stórkostlegt hjá okkur,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í morgun þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans, daginn eftir að hann stýrði Val til sigurs í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla í Aþenu. Valur lagði Olympiakos eftir tvo leiki og vítakeppni í þeim síðari, samanlagt 62:61.

Náðum ekki okkar besta leik

„Að fara í úrslitin var fyrsta afrekið og síðan að fylgja því eftir með því að vinna í úrslitum er annað. Fyrst markmið okkar var að ná góðum leik á heimavelli gegn Olympiakos og fara út til Aþenu með von í brjósti. Við höfðum trú á að geta leikið vel við erfiðar aðstæður á útivelli. Þegar á hólminn var komið reyndist leikurinn og aðstæðurnar í leiknum í gær mjög krefjandi og við náðum aldrei fram okkar besta leik,“ sagði Óskar Bjarni en metaðsókn var á handboltaleik í Grikklandi í gær, 7.500 áhorfendur.

Ljósmynd/EHF / Eurokinissi Sports.

„Stemningin var gríðarleg í höllinni, hitinn var óskaplega mikill auk þess sem við náðum aldrei að spila okkar bolta í leiknum. Á löngum köflum í fyrri hálfleik vorum við ekki góðir á neinum vígstöðvum. Í síðari hálfleik náðum við ágætum köflum en því miður tókst leikmönnum Olympiakos alltaf að stökkva aftur upp á vagninn,“ sagði Óskar Bjarni sem viðurkenndi að leikurinn hefði reynt mjög á sig. Hinsvegar hafi hann strax verið rólegri þegar ljóst var að úrslitin yrðu knúin fram í vítakeppni.

Rólegur í vítakeppni

„Í vítakeppninni gat ég ekki annað en fylgst með eftir að hafa ákveðið hverjir tækju vítaköstin,” sagði Óskar sem gekk til Željko Babić þjálfara Olympiakos þakkaði honum fyrir leikinn. Nú væri framhaldið komið úr þeirra höndum. Óskar sagði Babic hafa verið sér sammála.

Sjá einnig: Myndskeið: Vítakeppnin um Evrópugullið

Skrifað í skýin

„Ég hugsaði með mér þegar ljóst var að vítakeppni væri framundan að það væri ef til vill skrifað í skýin að við myndum vinna. Mér leið vel í vítakeppninni, eins furðulega og það kann að hljóma.

Það var að minnsta kosti ljóst að okkur Valsmönnum leið vel. Við skoruðum úr okkar vítaköstum og urðum Evrópubikarmeistarar. Þetta var yndislegt.“

14 leikir síðan í september

Valur lék 14 leiki í Evrópubikarkeppninni á tímabilinu. Hóf keppni í 1. umferð í september ásamt 23 öðrum liðum. Af þeim komust 12 í 64 liða úrslit og síðan koll af kolli allt til loka í Aþenu í gær, 13 sigrar og eitt tap. Olympiakos vann 12 leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði einni viðureign auk einnar vítakeppni.

Evrópubikarmeistarar Vals. Ljósmynd/EHF / Eurokinissi Sports.

Sigur sjálfboðaliðanna

„Þetta er mikið afrek hjá drengjunum í liðinu, þjálfarateyminu og stjórninni. Ég er þeirra skoðunar að afrekið sé ekki minna fyrir stjórnendur Vals og alla sjálfboðaliðana sem standa á bak við okkur. Það er erfitt að fara hvað eftir annað í gegnum nýja umferð. Um 70 sjálfboðaliðar komu að heimaleiknum okkar gegn Olympiakos sem er magnað og er sannarlega ekki sjálfgefið. Árangur þeirra er að mínu mati á sama stalli og okkar strákanna. Þetta er sigur fyrir íslenskan handbolta og sýnir hvað handboltinn hefur gefið þjóðinni mikið.

Um leið gefur þetta komandi kynslóðum mikið og verður vonandi til þess að fleiri félög fylgi í kjölfarið,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Evrópubikarmeistara Vals í handknattleik karla.

Úrslit leikja Vals í Evrópubikarkeppninni  2023/2024:
Olympiakos - Valur 35:32 (31:27 + 4:5).
Valur - Olympiakos 30:26.
CS Minaur Baia Mare - Valur 24:30.
Valur - CS Minaur Baia Mare 36:28.
Valur - CSA Steaua Búkarest 36:30.
CSA Steaua Búkarest - Valur 35:36.
RK Metaloplastika Sabac - Valur 28:30.
Valur - RK Metaloplastika Sabac 27:26.
Valur - HC Motor 33:28.
HC Motor - Valur 31:35.
Valur - Pölva Serviti 39:28.
Pölva Serviti - Valur 29:32.
Grantias-Karys - Valur 28:33.
Valur - Grantias-Karys 27:24.

Sjá einnig:

Þrír úr Evrópuliði Vals halda ekki áfram með liðinu

Valur er Evrópubikarmeistari!

Fetar Alexander Örn í fótspor pabba síns – og gott betur?

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -