- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fetar Alexander Örn í fótspor pabba síns – og gott betur?

Alexander Örn Júlíusson fyrirliði Vals. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Ef draumur Valsmanna rætist, að þeir verði Evrópumeistarar í Aþenu í Grikklandi á morgun, laugardag 25. maí, mun fyrirliði Vals Alexander Örn Júlíusson stíga í fótspor pabba síns, Júlíusar Jónassonar, sem varð Evrópumeistari fyrir 30 árum; 1994. Þá var Alexander Örn ekki fæddur. Alexander Örn mun þá gera gott betur, en hann getur orðið fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn til að taka á móti Evrópubikar og hampa honum. Valsmenn unnu fyrri úrslitaleikinn gegn gríska liðinu Olympiacos í Evrópubikarkeppninni, 30:26, þannig að þeir byrja leikinn í Aþenu með fjögurra marka forskot.

Já, það eru liðin 30 ár síðan að Júlíus og Geir Sveinsson fögnuðu sigri í EHF-keppninni með spænska liðinu Alzira Valencia. Alzira lék þá tvo úrslitaleiki gegn Linz frá Austurríki. Tapaði úti 21:22, en vann heima 23:19 og samanlagt 44:41. 

Júlíus var atvinnumaður í 10 ár, en hann fór frá Val til franska liðsins Asnieres í París 1989, síðan lék hann með Bidasoa á Spáni, París Saint-Germain (Asnieres), Alzira á Spáni, Gummersbach, Þýskalandi og svissnesku liðinum TV Shur og St. Otmar-St. Gallen.

Alexander Örn, sex vikna, með foreldrum sínum, Helgu Helgadóttur og Júlíusi Jónassyni, í sveitasælunni í Wiehl við Gummersbach. Ljósmynd: Sigmundur Ó. Steinarsson.

Þegar Júlíus varð Evrópumeistari í maí 1994 var Alexander Örn ekki fæddur. Móðir hans, Helga Helgadóttir, var þá komin fjóra mánuði á leið. Júlíus var Evrópumeistari og leikmaður með Gummersbach þegar Alexander Örn fæddist 17. október 1994.

Júlíus Jónasson í búningi St. Otmar-St. Gallen.

Kristján Arason reið á vaðið

Kristján Arason varð fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í flokkaíþrótt. Kristján og félagar hans hjá spænska liðinu Teka Santander fögnuðu sigri í Evrópukeppni bikarhafa 1990. Teka tapaði útileiknum gegn sænska liðinu Drott 21:22, en vann heimaleikinn 23:10 og viðureignirnar samtals, 44:41.

Gísli Þorgeir sonur hans, fór í kjölfar pabba síns og hefur orðið Evrópumeistari þrisvar. Hann fagnaði sigri með Magdeburg í Meistaradeild Evrópu í fyrra, 2023, og var kjörinn besti leikmaður úrslitakeppninnar, sem fór fram í Köln. Gísli Þorgeir hefur einnig orðið meistari, tvisvar – 2019 og 2021, í Evrópudeildinni; með Kiel og Magdeburg. 

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson fagna sigri í Meistaradeildinni í júní á síðasta ári. Ljósmynd/EPA

Gísli Þorgeir, Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason geta orðið Evrópumeistarar í Köln 9. júní. Þeir leika með Magdeburg í undanúrslitum gegn danska liðinu Aalborg og í hinum undanúrslitaleiknum eigast við Barcelona og Kiel. Janus Daði er á förum til ungverska liðsins SC Pick Szeged í sumar og miklar líkur eru á því að Elvar Örn Jónsson gangi til liðs við Magdeburg frá Melsungen.

Fleiri geta unnið um helgina

Auk Valsmanna geta tveir íslenskir handknattleiksmenn orðið Evrópumeistarar á sunnudaginn. Á morgun, laugardag, leikur Teitur Örn Einarsson með Flensburg í undanúrslitum Evrópudeildarinnar gegn Dinamo Búkarest. Í hinni viðureign undanúrslitanna eigast við Rhein-Neckar Löwen, með Valsmanninn Ýmir Örn Gíslason innanborðs, og Füchse Berlin.

Úrslitaleikirnir fara fram á sunnudaginn. Úrslitahelgi Evrópudeildarinnar fer fram í keppnishöllinni glæsilegu í Hamborg.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -