- Auglýsing -
- Auglýsing -

Held að strákarnir séu að reyna að ganga frá mér

Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs HK. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Ég held að strákarnir séu að reyna að ganga frá mér,“ sagði Sebastian Alexandersson þjálfari HK með sigurbros á vör þegar handbolti.is hitti hann eftir sigur á Stjörnunni, 28:27, í hörkuleik í Olísdeildinni í handknattleik karla í kvöld. Vísaði hann til þess að leikmönnum hans virðist einkar lagið að lifa á brúninni, fara illa að ráði sínu í lok leikja þegar þeir eru komnir í væna stöðu. Þeir höfðu nærri því brennt sig á soðinu í kvöld.

Með sigrinum lyftist HK upp úr 11. sæti deildarinnar og upp í það áttunda með sjö stig eftir 10 leiki. HK-ingar voru komnir með góða stöðu sex mínútum fyrir leikslok, 27:24, en fóru þá illa að ráði sínu í fjórum sóknum í röð. HK-ingum til láns þá voru Stjörnumenn einnig lánlausir.

Eins og spennufíklar

„Þetta var alveg eins og gegn Víkingi. Við vorum þá eins og nú komnir í góða stöðu og áttum að loka leiknum en fórum þá í að klúðra færum; klikkuðum á vítakasti, klikkuðum á dauðafæri í stöðunni sex á móti fjórum, áttum stangarskot og síðan hittum við ekki opið mark yfir allan leikvöllinn, allt í stöðunni 27:24. Það er bara eins við séu spennufíklar og viljum lifa á brúninni. Þetta á eftir að bíta okkar í rassgatið þótt það hafi ekki gert það í kvöld. Ég vil gjarnan sjá okkur loka leikjum betur en þetta,“ sagði Sebastian og varpaði öndinni svo sannarlega léttar.

Ótrúlega ánægður

„Þegar upp er staðið þá er ég ótrúlega ánægður. Stigin eru tvö. Við erum með lemstraðan hóp en það kemur maður í manns stað. Margir voru að spila og settu mark sitt á leikinn og allir að skila framlagi í leikinn. Ég get ekki annað en verið þakklátur og ánægður,“ sagði Sebastian sem neitar með öllu að hann og hans menn einblíni á stöðuna í töflunni daginn út og inn.

Hugsum bara um að safna stigum

„Við þurfum bara að fara í hvern leik til þess að vinna og ná þannig í eins mörg stig og mögulegt er. Síðan verður það bara að koma í ljós þegar upp verður staðið í vor hvort stigin verði nógu mörg til þess að við höldum sæti okkar. Við stillum ekki upp leikjum eins og þeim í kvöld sem fjögurra stiga leik. Við gerðum það fyrir leikinn gegn Selfossi og brenndum okkur á því. Nú förum bara í leikina til þess að vinna og síðan tekur næsti leikur við með sama hugarfari. Einn af öðrum,“ sagði Sebastian Alexanderson þjálfari HK í samtali við handbolta.is í Kórnum í kvöld.

Þetta er bara drullu pirrandi

Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -