Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ segir að ekki sé hægt að slá því föstu að hluti af heimsmeistaramótinu í handknattleik karla 2029 eða 2031 fari fram hér á landi þótt aðeins tvær umsóknir um að halda mótin liggi á borði stjórnar Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Önnur umsóknin er frá Danmörku, Íslandi og Noregi og hin frá Frökkum og Þjóðverjum. Sádi Arabar sýndu áhuga á að halda annað hvort mótið en staðfestu ekki áhuga sinn með formlegri umsókn eins og kom fram á dögunum.
„Eins og staðan er núna eru tvær umsóknir um tvö mót. Það á eftir að taka umsóknirnar til skoðunar og ganga úr skugga um að við uppfyllum allar kröfur sem gerðar eru. Þetta verður allt tekið fyrir á fundi stjórnar IHF 16. apríl,“ sagði Guðmundur í samtali við handbolta.is.
Framkvæmdastjórn Alþjóða handknattleikssambandsins tekur fyrir, og afgreiðir umsóknirnar á fundi sínum í Créteil í Frakklandi 16. apríl
IHF bíður staðfestingar
„Það sem snýr fyrst og fremst að okkur er þjóðarhöllin og sú spurning hvort hún verði tilbúin eða ekki áður en annað hvort mótið, 2029 eða 2031 fer fram. IHF vill fá skýr svör frá okkur um það og margt annað varðandi keppnishöllina,“ sagði Guðmundur en glöggt mátti á honum skilja að IHF samþykki ekki að Íslandi verði með í umsókninni nema að tryggt sé að lögleg keppnishöll verði fyrir hendi hér á landi.
Hefur gríðarlega mikið að segja
„Ákvörðunin um að efna til forvals útboðs hefur þar af leiðandi gríðarlega mikið að segja fyrir okkar umsókn. IHF hefur meðal annars óskað eftir myndum og teikningum frá okkur. Fram til þessa hef ég ekki haft neitt í höndum yil sýna. Aðeins reynt að fullvissa þá sem stýra málum hjá IHF um að keppnishöllin verður tilbúin,“ sagði Guðmundur sem fagnaði tilkynningu Þjóðarhallar ehf., fyrir hönd ríkis og Reykjavíkurborgar, um að auglýsa forval fyrir samkeppnisútboð fyrir hönnun og byggingu nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir í Laugardal.
Vilja skýr svör frá okkur
„Þótt svo að það líti þannig að út að aðeins séu tvær umsóknir um mótin tvö þá er ekkert í hendi um að þeir samþykki samflot okkar með Dönum og Norðmönnum. Þeir sem skipuleggja stórmótin hugsa fyrst og fremst um hag handboltans, stórmótin og orðspor þeirra. Ég skil mjög vel að þeir vilji fá skýrari upplýsingar frá okkur áður ákvörðun verður tekin hvort umsókn okkar með Dönum og Norðmönnum verður samþykkt. Við munum gera okkar besta að veita sem skýrust svör. Tilkynning Þjóðarhallar ehf auðveldar okkur aðeins ferlið,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ í samtali við handbolta.is.
Tengt efni:
Samkeppni um hönnun og byggingu Þjóðarhallar
Formaður HSÍ: Held að ekki verði aftur snúið úr þessu
Fullvíst að HM 2029 eða 2031 verður á Íslandi