- Auglýsing -
- Talsverðar líkur eru á að Luka Cindric verði í leikmannahópi Króata í úrslitaleiknum við Dani á morgun. Dagur Sigurðsson staðfesti við danska fjölmiðla að Cindric taki þátt í æfingu með króatíska liðinu í Bærum á morgun klukkan 17. Eftir æfinguna kemur betur í ljós hvort Cindric tekur þátt í úrslitaleiknum eða ekki.
- Víst er að Cindric hefði vart ferðast með króatíska liðinu til Noregs nema að góðar líkur séu fyrir hendi að hann geti spilað. Cindric var með króatíska liðinu í tveimur fyrstu leikjum HM en varð að draga sig úr hópnum eftir það vegna meiðsla.
- Því var slegið upp eftir að Cindric dró sig út úr hópnum eftir tvo leiki að kastast hafi í kekki milli hans og Dags. Sá síðarnefndi þverneitaði. Cindric var meiddur síðustu vikurnar fyrir HM og missti af síðasta leik Veszprém í Ungverjalandi fyrir jólaleyfi.
- Dagur Sigurðsson verður fyrsti íslenski þjálfarinn til þess að stýra landsliði í úrslitaleik heimsmeistaramóts karla í handknattleik á morgun. Dagur var þjálfari þýska landsliðsins þegar Þjóðverjar unnu EM 2016 í Póllandi.
- Ef Króatar vinna verður Dagur aðeins annar þjálfarinn sem er ekki fæddur í heimalandi sigurliðsins. Vlado Stenzel var landsliðsþjálfari Vestur Þýskalands sem vann HM 1978. Stenzel er Króati.
- Hinn ungi handknattleiksmaður, Thomas Arnoldsen, verður með danska liðinu í úrslitaleiknum. Hann meiddist í leiknum við Brasilíu í átta liða úrslitum en var lítillega með í undanúrslitaleiknum gegn Portúgal í gærkvöld.
- Rúmlega 1.200 Danir hafa tryggt sér miða á úrslitaleik Danmerkur og Króatíu um heimsmeistaratitilinn í Unity Arena í Bærum á morgun kl. 17. Danir eiga rétt á 2.000 aðgöngumiðum á úrslitaleikinn. Sömu sögu að segja um Króata.
- Danski markvörðurinn Emil Nielsen lá í rúminu í allan gærdag áður en hann stóð markinu í undanúrslitaleiknum við Portúgal. Nielsen fann til flensueinkenna og tók því rólega fram að leik. Hann virtist hafa jafnað sig þegar að leiknum kom, ekki síst var Nielsen öflugur í síðari hálfleik. Þegar upp var staðið varði Nielsen 15 skot, 38%, auk þess að eiga fimm stoðsendingar.
- Auglýsing -