Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, vann öruggan sigur á japanska landsliðinu, 35:28, í annarri umferð C-riðils heimsmeistaramótsins í Koprivnica. Þar með lifir vonin um sæti í 16-liða úrslitum mótsins en til þess að hún slokkni ekki verður íslenska liðið að leggja egypska landsliðið á laugardaginn í síðustu umferð riðlakeppninnar. Egyptar unnu Tékka í dag með sex marka mun, 28:22.
Ljóst var frá upphafi að menn ætluðu sér sigur í dag. Vörnin var mjög góð og markvarslan einnig hjá Ísak Steinssyni sem var valinn maður leiksins þegar upp var staðið. Íslensku piltarnir náð forystunni strax og þótt illa gengi framan í sóknarleiknum létu menn ekki hug falla.
Japanska liðið minnkað muninn í eitt mark, 9:8, þegar um átta mínútur voru eftir af fyrir hálfleik. Nær komst það ekki Ísland náðu fjögurra marka forskoti, 13:9, og var þremur yfir í hálfleik, 13:10.
Síðari hálfleikur var mjög góður. Flest gekk upp í sóknarleiknum og varnarleikurinn var afar sterkur eins og áður allt þangað til í lokin að leikurinn leystist aðeins upp. Munurinn var mestur átta mörk og eins áður sagði stóð aldrei ógn af japanska liðinu að þessu sinni.
Mörk Íslands: Össur Haraldsson 5, Andri Fannar Elísson 4, Daníel Örn Guðmundsson 4, Elmar Erlingsson 4, Reynir Þór Stefánsson 4, Eiður Rafn Valsson 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 3, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Birkir Snær Steinsson 1, Hans Jörgen Ólafson 1, Kjartan Þór Júlíusson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 12, 32% – Breki Hrafn Árnason 1, 25%.
HMU19: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.