Hvorki hefur heyrst hósti né stuna frá forráðamönnum Handknattleikssambands Evrópu, EHF, eftir að danska sjónvarpsstöðin TV2, í tveimur þáttum, fletti ofan af meintu veðmálabraski og hagræðingu úrslita sem virðist hafa átt sér stað innan handknattleiksins víða í Evrópu, m.a. í leikjum Evrópukeppni félagsliða og tengjast jafnvel stjórnendum EHF.
Spjótin beinast að formanninum
Spjótin beinast ekki síst að Dragan Nachevski sem árum saman var formaður dómaranefndar EHF og nánast var einráður þegar kom að niðurröðun dómara á stærri mót og leiki. Hann lýsir yfir sakleysi sínu þrátt fyrir að hafa verið settur af í maí eftir að EHF fékk gögn í hendurnar þar sem kemur fram að maðkur hafi verið í mysu Norður Makedóníumannsins.
Sonurinn undir sömu sök seldur
Sonur Dragans, Gjorgij, hefur árum saman verið dómari á öllum stórmótum og úrslitaleikjum Evrópumóta félagsliðs, liggur ennfremur undir grun um að tengjast vafasömum félagsskap hópa í austurhluta Evrópu sem bendlaðir eru við veðmálabrask. Gjorgij hvarf af sjónarsviðinu í vor um leið og karl faðir hans var loksins settur út í kuldann eftir að TV2 sendi EHF upplýsingar sem tengja Dragan við sitthvað misjafnt.
EHF sendir helsta framámann dómaramála í ótímabundið leyfi
Toppurinn á ísjakanum
Feðgarnir virðast þó aðeins vera toppurinn á ísjakanum, ef svo má segja. Málið í heild lítur illa út fyrir stjórnendur EHF og hafa fjölmiðlamenn í Danmörku kallað eftir afsögn forseta EHF.
Í þáttunum TV2 sem bera heitið „Mistænkeligt spil“ eða „Grunsamlegur leikur“ hafa dómarar komið fram og fullyrt að Nachevski hafi beðið þá um að beita sér fyrir „hagstæðum úrslitum.“ Slíkt gæti rutt framabrautina fyrir þá innan dómaranefndarinnar.
Enginn kvartað
Dómararnir eiga það sammerkt að hafa ekki kvartað til EHF og borið því við að það væri tilgangslaust þar sem mestar líkur væri að klögumálum væri stungið undir stól.
Blindu auga beint að málum
Í þáttunum kemur fram að svo virðist sem EHF hafi beint blinda auganu að málum, jafnvel eftir að Sportradar, sem rannsakar hagræðingu úrslita í íþróttum, vakti athygli á atvikum þar sem rökstuddur grunur hefur vaknað um að ekki hafi allt verið með felldu. Jafnvel virðist austurríska lögreglan hafa látið hjá líða að rannsaka meintan grun um veðmálasvindl. EHF er með bækistöðvar í Austurríki.
Bjarne Munk Jensen, sem sæti á í dómaranefnd Alþjóða handknattleikssambandsins, segir við TV2 að það hafi vakið undrun sína að austurríska lögreglan hafi ekki brugðist við.
Dómarapör bendluð við veðmálasvindl – þar á meðal HM-dómarar
Heldur áfram að dæma
Dæmi hefur m.a. verið tekið af Erdoan Vitaku og Arsim Vitaku dómurum frá Kósóvó. Þeir hafa verið tengdir við veðmálabrask í kringum leiki sem þeir hafa dæmt. Einn leikjanna var viðureign Kadetten frá Sviss og GOG sem fram fór haustið 2020 og handbolti.is sagði frá á sínum tíma að sterkur grunur væri uppi um hagræðingu úrslita.
Vitaku bræðurnir héldu áfram að dæma í alþjóðlegri keppni fram undir lok síðasta árs þótt athygli hafi verið vakin á að þeir virtust hafa óhreint mjöl í pokahorninu.
Snýst um trúverðugleika
Kåre Geir Lio formaður norska handknattleikssambandsins segir stöðuna vera óviðunandi. Þættirnir hafi opnað augu manna fyrir vandamáli sem fæstir töldu að væri raunin. Málið í heild snúist um trúverðugleika handknattleiksíþróttarinnar. Lio segist hafa rætt við forsvarsmenn handknattleikssambanda hinna Norðurlandanna, þar á meðal Íslands. Menn séu á einu máli að grípa verði ákveðið í taumana. Saman hyggjast löndin beita áhrifum sínum innan EHF svo ekki verði áfram flotið að feigðarósi.