Tilkynnt var í morgun að Serbinn Momir Ilic hafi verið ráðinn þjálfari ungverska stórliðsins Veszprém. Hann tekur við af Spánverjanum David Davis sem var gert að taka pokann sinn á dögunum vegna óviðundandi árangurs liðsins á síðustu leiktíð að mati forráðamanna félagsins.
Ilic lék mað Veszprém frá 2013 til 2019 þegar hann lagði skóna á hilluna. Ilic lék einnig með Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar frá 2009 til 2013 og Gummerbach frá 2006 til 2009. Ilic lék með fleiri félagsliðum í upphafi feril síns auk fjölmargra landsleikja með Serbum í meira en áratug. Ilic var afar sigursæll sem leikmaður. Veszprém er fyrsta liðið sem hann þjálfar.
Ilic til halds og trausts hjá Veszprém verður Ungverjinn Péter Gulyás sem lék í meira en áratug með Veszprém og ungverska landsliðinu.
Forráðamenn Veszprém vilja með þessum breytingum freista þess að koma liðinu á skrið á nýjan leik. Veszprém tapaði fyrir Pick Szeged í úrslitum um ungverska meistaratitilinn í vor og féll úr keppni í átta liða úrslitum Meistaradeildar en liðið hefur nánast átt fast sæti í undanúrslitum mörg síðustu ár án þess þó hafa unnið keppnina.