„Ég er mjög ánægður með strákana og þá staðreynd að þeir vinna baráttuleik og hvernig tókst að vinna úr þeirri stöðu sem kom upp þegar við misstum Blæ út meiddann,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar þegar handbolti.is hitti hann eftir framlengdan sigurleik á móti Fram, 33:30, í fyrstu umferð átta liða úrslita Olísdeildar karla í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld.
„Mér fannst við vera fljótir að ná okkur upp eftir að hafa misst taktinn um skeið. Heilt yfir þá lékum við vel að þessu sinni. Varnarleikurinn var frábær en fyrst og fremst erum við ánægðir með sigurinn í leik tveggja hörkuliða. Karakterinn og liðsheildin reið baggamuninn hjá okkur,“ sagði Gunnar.
Fram hefur verið með tak á Aftureldingu í vetur. Gunnar sagði mikilvægt að losna undan því taki. „Við höfum tapað nokkrum jöfnum leikjum fyrir Fram á síðustu mínútum. Sigurinn segir okkur kannski eitthvað til um það hversu langt við erum komnir. Nú vinnum við jafnan leik sem við hefðum kannski tapað fyrir einhverjum mánuðum eða ári,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.