- Auglýsing -
- Ísak Steinsson og Viktor Petersen Norberg voru í sigurliði Drammen í kvöld þegar liðið vann Pallamano Conversano, 43:31, í fyrri viðureign liðanna í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla í Pala San Giacomo nærri Bari á Ítalíu í dag. Liðin mætast öðru sinni í Drammen eftir viku.
- Viktor skoraði fimm mörk en Ísak kom ekki mikið við sögu í markinu vegna þess að kollegi hans, Oscar Larsen Syvertsen, átt stórleik í markinu og varði 15 skot. Drammen stendur afar vel að vígi og virðist eiga greiða leið í næstu umferð keppninnar.
- Haukar er fulltrúar Íslands í Evrópubikarkeppni karla á þessu tímabili. Hafnarfjarðarliðið situr yfir í fyrstu umferð en mætir Riihimäki Cocks frá Finnlandi í annarri umferð síðla í október, heima og að heiman.
- Birkir Benediktsson og liðsmenn Wakunaga töpuðu á heimavelli fyrir Zeekstar Tokyo, 37:24, á heimavelli í annarri umferð í japönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærmorgun að íslenskum tíma. Wakunaga er án stiga eftir leikina tvo. Samkvæmt mynd sem birtist á Instagram-síðu Wakunaga var Birkir í leikmannahópi liðsins. Afar torsótt hefur reynst að afla upplýsinga um tölfræði úr leikjum Wakunaga.
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk en Berta Rut Harðardóttir ekkert þegar lið þeirra Kristianstad HK tapaði á útivelli fyrir HK Aranäs, 24:23, í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í dag.
- Vilborg Pétursdóttir skoraði þrjú mörk í tveggja marka góðum sigri AIK á útivelli í heimsókn til BK Heid, 25:23, í fyrstu umferð næst efstu deildar sænska handknattleiksins í dag. AIK, sem kom upp í deildina í vor fer af stað af krafti með þessum sigri á BK Heid sem fyrirfram var talið eitt af sterkari liðum deildarinnar.
- Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark fyrir Svíþjóðarmeistara IK Sävehof í dag þegar liðið hóf titilvörnina í úrvalsdeildinni með 10 marka sigri á Skånela IF, 39:29, á útivelli.
- Auglýsing -