Norska liðið Drammen leikur báða leiki sína við ísraelska liðið Holon Yuvalim HC í 64-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik um helgina fyrir luktum dyrum. Viðureignirnar fara fram í Drammen á morgun og á sunnudag. Ákvörðun var tekin að leika fyrir luktum dyrum til að tryggja öryggi þeirra sem taka þátt í leiknum í Drammenshallen.
Eins og kom fram í fregnum á dögunum þá vildu forráðamenn Drammen helst forðast að mæta ísraelska liðinu í keppninni. Því hefði hinsvegar fylgt refsing af hálfu Handknattleikssambands Evrópu og há fjársekt sem stjórnendur Drammen segja að hefði getað riðið félaginu um slig. Eftir viðræður á milli félaganna og stjórnenda EHF varð það niðurstaðan að leika báða leiki í Drammen.
Ólafur Örn Haraldsson, formaður dómaranefndar HSÍ verður eftirlitsmaður á leiknum og Svíar dæma. Tveir hálf íslenskir handknattleiksmenn eru leikmenn Drammen og taka þar af leiðandi þátt, Ísak Steinsson markvörður og Viktor Pedersen Norberg.