Ekkert verður af því að handknattleikskonan Lena Margrét Valdimarsdóttir gangi til liðs við Selfoss. Tilkynnt var í dag að hún hafi skrifað undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, Fram. Þar með er einnig ljóst að ekkert verður úr því að Lena Margrét semji við þýska 1. deildarliðið HSG Bad Wildungen Vipers hvar hún var við æfingar á dögunum.
Lena Margrét kvaddi Fram fyrir tveimur árum og gekk til liðs við Stjörnuna. Samningur hennar við Stjörnuna rann út í vor og hafði Lena Margrét í hyggju að ganga til liðs við Selfoss. Hafði félagið m.a. sagt frá komu hennar. Forsendur breyttust þegar Selfoss féll úr Olísdeildinni fyrr í þessum mánuði.
Lena Margrét skoraði 109 mörk í 21 leik í Olísdeildinni í vetur og 39 mörk í sjö leikjum í úrslitakeppninni.
Í mars var Lena Margrét kölluð inn í landsliðið sem mætti B-landsliði Noregs í tveimur vináttuleikjum á Ásvöllum.
„Fram er uppeldisfélag mitt, hér þekki ég marga og það er gott að vera komin aftur. Liðið er mjög vel mannað og ljóst að við munum vera í mikilli baráttu í vetur. Einar þjálfari er með skýra sýn á hvernig við ætlum að spila og hvað við ætlum að gera. Það verður gaman að taka þátt í því,“ er haft eftir Lenu Margréti í tilkynningu handknattleiksdeildar Fram.