- Auglýsing -
- Færeyingar opnuðu nýja þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir á laugardaginn nærri 26 mánuðum eftir að fyrsta skóflustungan var tekin fáeinum dögum fyrir jólin 2022. Til hamingju Færeyingar!
- Hér á landi bólar lítt á nýrri þjóðarhöll þótt rætt hafi verið um hana áratugum saman.
- Í Færeyjum var gengið rösklega til verks og stakkur sniðinn eftir vexti. Byggt glæsilegt mannvirki sem rúmar að hámarki um 3.000 áhorfendur í sæti á alþjóðlegum leikjum, t.d. handbolta. Einnig stendur til að nýta húsið fyrir æfingar, vörusýningar og ráðstefnur.
- Rætt hafði verið um nauðsyn þess að byggja nýtt keppnishús í Færeyjum um nokkurra ára skeið. Høllin á Hásli var barn síns tíma frá 1970. Lítið og vinalegt íþróttahús sem fyrir löngu stóðst m.a. ekki kröfur til alþjóðlegrar keppni. Á síðustu árum fyrir covid-faraldurinn var Færeyingum meinað að leika heimaleiki sína í Høllinni á Hálsi . Þeir neyddust til þess að leika nokkra leiki á Jótlandi. Í covid var bannið afturkallað og þráðurinn aftur tekinn upp í Höllinni á Hálsi eða Nabb.

- Færeyingar sáu að við svo búið mátti ekki standa. Heðin Mortensen þáverandi borgarstjóri Þórshafnar hét því þegar 19 ára landslið karla vann B-hluta Evrópumótsins 2021 að leikmenn þess liðs skyldu aldrei leika heimaleiki utan heimalandsins. Gengið var í verkið. Kostnaðurinn greiddur úr opinberum sjóðum og einkaðila. Færri orð, þeim mun meiri efndir.
- Hér á landi er allt annað upp á teningnum. Rætt hefur verið um nýja keppnishöll fyrir innanhússíþróttir í áratugi. Hugmyndir voru upp úr 1990, á árunum fyrir HM 1995 að ráðast í byggingu íþróttahallar. Eftir japl, jaml og fuður voru áform blásin út af borðinu og m.a. sagt að ekki væri forsvaranlegt að leggja út í byggingu húss fyrir einn leik. Óvenju hart var einnig í ári hjá ríkissjóði eins og reyndar oftast áður og fyrr.
- Síðan eru liðnir áratugir. Af og til hefur verið rætt um byggingu þjóðarhallar. Íþróttamenn, þjálfarar og forsvarsmenn íþróttasambanda látið í sér heyra en á tíðum talað fyrir daufum eyrum. Jæja, og þó, skýrslu starfshóps um byggingu nýs þjóðarleikvangs fyrir innanhúsíþróttir var skilað sumarið 2020.

- Ég minnist margs en m.a. að snemma í janúar 2023 var blásið til fundar á hóteli í Reykjavík hádegi eitt þar sem saman komu m.a. þáverandi forsætisráðherra, ráðherra íþróttamála og borgarstjóri. Fallegar myndir voru teknar, ræður fluttar og skrifað undir pappíra. Fjölmiðlamönnum „gafst tækifæri til“ að ræða við ráðherra og borgarstjóra um að nú væri kominn tími á að taka til hendinni og höllinn tekin í notkun 2025. Um hátíðardag væri að ræða. Framkvæmdir áttu að hefjast snemma árs 2024.
- Minnsti íþróttafréttamiðill landsins lét hjá líða að taka viðtöl. Vissi sem var að þau yrðu jafn gagnlaus og tóm bankabók.
- Nú er komið fram yfir miðjan febrúar 2025. Fyrsta skóflustungan hefur ekki verið tekin. Kaup á skóflunni þarf væntanlega að gera með útboði á evrópska efnahagssvæðinu með tilheyrandi kærumálum.
- Í maí 2022, átta mánuðum fyrir hótelfundinn í janúar 2023 var undirrituð viljayfirlýsing um að ráðist yrði í byggingu þjóðarhallar og stefnt var að því að framkvæmdum lyki 2025.

- Semsagt fátt nýtt á fundinum í janúar 2023 nema mjög fín skýrsla og rífandi stemning hjá ráðherra sem var á leiðinni til Svíþjóðar að styðja íslenska landsliðið í handknattleik karla í leikjum HM 2023.
- „Við vissulega stefndum á árslok 2025 en ég gæti trúað því, með því að auglýsa samkeppnina núna í október, að ný þjóðarhöll gæti risið í árslok 2026 eða upphaf ársins 2027,“ sagði Gunnar Einarsson, framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í samtali við Vísir nokkrum mánuðum eftir fundinn á hótelinu í janúar 2023.
- Ég minnist einnig fleiri funda, þar á meðal eins í Laugardalshöll fyrir ári með ráðherrum og borgarstjóra. Flott glærusýning!
- Nú mun stefnan hafa verið sett á að opna þjóðarhöllina 2029. Ljúft er láta sig dreyma.
Ívar Benediktsson, [email protected]
P.s. Fyrir þá sem vilja lesa meira vísa ég hér í grein frá haustdögum 2021. Síðan hefur ekki mikið breyst og hugsanlega hefði mátt birta hana aftur í stað þess sem ofan er ritað.
Á morgun, á morgun…
- Auglýsing -