„Við mætum alls óhræddir til leiks þótt báðir leikirnir fari fram úti. Við ætlum okkur sigur og að komast áfram,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari karlaliðs Aftureldingar í samtali við handbolta.is áður en hann fór með sveit sína síðdegis í gær til Presov í Slóvakíu. Þar mætir Afturelding liði Tatran á morgun föstudag og á sunnudaginn í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla.
Ekki óvinnandi vegur
„Ég hef skoðað lið Presov og tel að við eigum möguleika gegn því þótt vissulega verði það erfitt verkefni sem við erum að fara í,“ sagði Gunnar ennfremur en Afturelding lagði Nærbø með eins marks mun í tveimur leikjum í síðustu umferð Evrópubikarkeppninnar.
Meistari árlega
„Tatran var í Evrópudeildinni á síðasta tímabili [sama keppni og Valur var með í – innskot blm] og hefur nærri því orðið landsmeistari í Slóvakíu á hverju ári síðustu 20 ár eða svo. Þetta er hörkulið sem hefur mikla reynslu af þátttöku í Evrópukeppni. Meðal annars sló Tatran Presov lið FH naumlega út úr Evrópukeppninni fyrir nokkrum árum.
Spenntur fyrir leikjunum
Tatran Presov er atvinnumannalið sem verður gaman fyrir okkur að máta sig við. Ég er spenntur fyrir þessum leikjum,“ sagði Gunnar ennfremur en hann kom með sveit sína til Presov sl. nótt eftir rútuferð frá Búdapest en þangað flaug Aftureldingarliðið.
Fyrri leikurinn ræður miklu
„Ef við náum góðum leik á föstudaginn þá eigum góða möguleika á að komast áfram. Að sama skapi er ljóst að þetta verður erfitt. Miði er alltaf möguleiki,“ sagði Gunnar.
Afturelding kaus að fara þá leið að leika báða leikina ytra. Fjárhagslegar forsendur voru fyrir því að sögn Gunnars. Ferðalagið er mjög langt og dýrt og kostnaður við þátttökuna er hár.
Dýrmæt reynsla
„Auðvitað hefðum við vilja leika heima en kusum að fara þess leið núna, það er að leika báðar viðureignir ytra. Við megum heldur ekki gleyma því að þátttaka í Evrópukeppni veitir leikmönnum mikla reynslu. Menn lögðu inn í reynslubankann með leikjunum við Nærbø. Ég viss um að tveir leikir í Slóvakíu eiga einnig eftir að verða okkur dýrmæt og góð reynsla,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.
Klukkan 17 báða daga
Fyrri viðureign Aftureldingar og Tatran Presov hefst klukkan 17 á morgun föstudag og sú síðari klukkan 17 á sunnudaginn. Vitanlega er um íslenskan tíma að ræða.
Hér fyrir neðan má fræðast nánar um Tatran Presov.