- Auglýsing -
- Þær ánægjulegu fregnir bárust á dögunum að karlalið Vals verður með í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik á næsta keppnistímabili. Valur verður eitt 12 liða sem hleypur yfir tvær umferðir undankeppni deildarinnar og fer beint í 24 liða riðlakeppni sem hefst í október og stendur fram í lok febrúar.
- Fyllsta ástæða er til að óska Val til hamingju með þátttökuna og það djarfa og framsækna skref sem tekið er með henni. Valsmenn hefðu getað afþakkað sætið og haldið sig við vera með í undankeppninni, kannski fallið úr leik í annarri hvorri umferðinni og sloppið með minni kostnað við þátttökuna.
- Um er að ræða stóran og afar mikilvægan áfanga fyrir íslenskan félagsliða handknattleik og mikla viðurkenningu standa það til boða. Tvímælalaust er þetta stærsta skref íslensks félagsliðs í Evrópukeppninni síðan Haukar voru síðast með í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu keppnistímabilið 2008/2009 og léku í skugga hruns íslenska fjármálakerfisins undir ómi blessunarorða þáverandi forsætisráðherra.
- Fyrir löngu virðast vonir Íslendinga um sæti í Meistaradeild Evrópu vera úr sögunni. Á síðustu árum hefur jafnt og þétt verið þrengt að þátttöku flestra meistaraliða að Meistaradeildinni. Hún er núna nánast fyrir útvalin hóp nokkurra stærstu félagsliða Evrópu.
- Til viðbótar við hversu vonlítið er fyrir íslensk félagslið að öðlast sæti í Meistaradeild Evrópu bætist við að aðstaða fyrir leiki keppninnar er ekki fyrir hendi hér á land. Aðstaða sem er enn aðeins hilling við sjónarrönd á björtum vornóttum rétt fyrir kosningar.
- Einnig er þátttaka í Meistaradeild svo kostnaðarsöm að mörgum hrýs hugur við velta henni fyrir sér. Fyrir vikið hafa menn veigrað sér við að stíga skrefið. Skal engan undra. Þátttaka í Evrópukeppni í handknattleik er ekki sú gullkista sem Evrópukeppni í knattspyrnu er.
- Evrópudeildin er aðeins smærri í sniðum en Meistaradeildin. Kröfur til keppnishúsa er eitthvað minni en nægði þó til að menn svitnuðu á Hlíðarenda við að lesa prótókoll Handknattleikssambands Evrópu, EHF, um kröfur vegna umgjarðar leikja. EHF fylgir kröfum sínum eftir. Ekki eru nema fáeinar vikur síðan að lið sem tóku þátt í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð voru sektuð um þúsundir evra fyrir yfirsjónir. Það eru margar seldar salernisrúllur.
- Ferða- og uppihaldskostnaður við leiki í Evrópudeildinni er sá hinn sami og í annarri Evróukeppni. Tekjur frá EHF eru litlar og fremur óvissar enda m.a. háðar árangri eftir því sem næst verður komist.
- Því hefur verið fleygt að kostnaður Valsara verði ekki undir 30 milljónum króna. Framundan eru tíu leikir, fimm heima og fimm að heiman. Ef mjög vel gengur er ekki hægt að útiloka sæti í 16-liða úrslitum með fleiri leikjum og meiri útgjöldum.
- Tugir milljóna eru ekki teknar upp af götunni hjá íþróttafélögum hér á landi, jafnvel þótt þau heiti Valur og að bakland félagsins kunni að vera sterkara en sumstaðar annarstaðar.
- Alls taka sjö íslenska lið þátt í Evrópukeppni félagsliða í haust og í vetur. Auk karlaliðs Vals verða kvennalið Vals, ÍBV og KA/Þórs með í Evrópubikarkeppninni og Haukar, ÍBV og KA í Evrópubikarkeppni karla.
- Mjög ánægjulegt er að sjá hversu ríkan metnað íslensk félög hafa sýnt á undanförnum árum til að vera með í Evrópukeppni. Sum hver árum saman og eiga orðið yfir 100 leiki eins og t.d. Haukar.
- Leikmenn og stjórnendur liðanna leggja metnað, útsjónarsemi og vinnu við að afla fjár með sjálfboðavinnu og margvíslegri sölu á varningi. Þegar vel gengur innan vallar er lagst þyngra á árar, samanber kvennalið ÍBV á síðasta tímabili, svo aðeins eitt dæmi af mörgum sé tekið.
- Allir sem hlut eiga að máli eiga ómælt hrós skilið.
[email protected]
- Auglýsing -