„Þetta var frábær leikur, mikil gæði jafnt í vörn sem sókn og það skilaði þessum sigri í hús,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson markvörður Vals sem átti stórleik gegn Haukum í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld. Hann varði 17 skot, 46%, þann tíma sem hann stóð í markinu og svaraði þar með fyrir slaka frammistöðu í Eyjum á sunnudaginn. Valur vann með sex marka mun, 31:25.
„Varnarleikurinn var frábær frá byrjun. Hann lagði grunninn að þessum sigri,“ sagði Björgvin sem líkar svo sannarlega lífið í markinu fyrir aftan vörnina eins og hún var að þessu sinni.
„Það kemur maður í manns stað. Þótt einhverjir kvarnist úr vegna meiðsla þá er baráttan og andinn áfram fyrir hendi sem er æðislegt,“ sagði Björgvin Páll en m.a. vantaði Magnús Óla Magnússon í lið Vals að þessu sinni. Einnig sneri Viktor Sigurðsson sig á ökkla.
Sýndum að við erum bestir
Björgvin Páll sagði Valsmenn hafa mætt klára í slaginn vitandi það að Haukar hafa verið á mikilli siglingu síðustu vikur og m.a. unnið fjóra leiki í röð.
„Menn leika aldrei betur en andstæðingurinn leyfir. Við sýndum í kvöld að við erum bestir þegar við erum á okkar degi. Þegar við erum í þessum ham þá velti ég lítið fyrir mér hvort andstæðingurinn hafi verið á sínum besta degi eða ekki,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson markvörður Vals í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í kvöld.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildunum.