- Auglýsing -
- Andrea Jacobsen skoraði ekki mark fyrir Silkeborg-Voel þegar liðið tapaði fyrir Nykøbing-Falster HK, 28:22, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Andrea átti eitt markskot sem geigaði. Henni var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. Silkeborg-Voel er í 11. sæti af 14 liðum deildarinnar með sex stig að loknum 10 umferðum. Esbjerg er efst með 20 stig. Ikast er í öðru sæti með 18 stig.
- Storhamar vann Sola, 34:29, í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í gær. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar sem er í öðru sæti deildarinnar með 18 stig eftir 10 umferðir.
- Stöðuna í norsku úrvalsdeildinni og í fleirum deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Volda þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Utleira, 25:22. Volda er í öðru sæti næst efstu deildar í norska handboltanum með 12 stig eftir átta leiki. Utleira er í fjórða sæti.
- Timo Kastening var markahæstur í þýska karlalandsliðinu með átta mörk þegar Þjóðverjar unnu Egypta, 28:27, í síðari vináttulandsleik þjóðanna að viðstöddum nærri 11 þúsund áhorfendum í Ólympíuhöllinni í München í gær. Að vanda er Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands. Juri Knorr skoraði sjö mörk og var næst markahæstur í þýska liðinu. Fyrri vináttulandsleiknum lauk með jafntefli, 31:31, í Neu-Ulm á föstudaginn.
- Danir tóku Hollendinga í bakaríið í lokaumferð gullmótsins svokallaða í handknattleik karla, í Arendal í Noregi í gær, 40:23. Heimsmeistararnir unnu örugglega allar þrjár viðureignir sínar á mótinu. Mathias Gidsel skoraði 10 mörk fyrir danska landsliðið í gær og Hans Aaron Mensing sjö. Rutger Ten Velde og Evert Kooijman skoruðu fjögur mörk hvor fyrir hollenska landsliðið sem vann norska landsliðið á mótinu en tapaði spænska landsliðinu og danska.
- Sander Sagosen skoraði níu mörk þegar Noregur lagði Spán, 31:29, í síðustu umferð áðurgreinds Gullmóts í handknattleik karla sem lauk í gær í Arendal. Ekki var leikið í kvennaflokki á mótinu eins og sagt er frá í eina dagblaði landsins í morgun. Leikmenn norska kvennalandsliðsins voru uppteknir með félagsliðum sínum víða um Evrópu um helgina og koma ekki saman til æfinga undir stjórn Þóris Hergeirssonar fyrr en eftir hálfan mánuð.
- Magnus Abelvik Rød skoraði sjö mörk fyrir norska landsliðið og var næst markahæstur. Agustín Casado Marcelo skoraði fimm mörk fyrir spænska landsliðið sem vann það hollenska á mótinu en tapaði fyrir Dönum auk tapsins fyrir norska landsliðinu.
- Auglýsing -