- Auglýsing -
- Spænski vinstri hornamaðurinn Aitor Arino er sagður yfirgefa Barcelona eftir keppnistímabilið í vor og ganga til liðs við Füchse Berlin. Forráðamenn þýska liðsins er sagðir hafa leitað í dyrum og dyngjum síðustu vikur að eftirmanni Svíans Jerry Tollbring sem flytur til Esbjerg í sumar. Leitin mun hafa skilað mönnum til Barcelona þar sem Arino er sagður spenntur fyrir að flytja til þýsku höfuðborgarinnar.
- Ian Barrufet er sagður í staðinn snúa heim til Barcelona frá leigudvöl hjá MT Melsungen. Manuel Strlek verður ekki hjá Füchse Berlin nema fram í júní. Strlek kom í skyndi til Berlínarliðsins þegar áðurnefndur Tollbring sleit krossband í byrjun vetrar.
- Viktor Szilagyi hefur skrifað undir áframhaldandi samning við THW Kiel. Austurríkismaðurinn hefur verið íþróttastjóri félagsins síðan hann lagði skóna á hilluna fyrir sjö árum.
- Danski vinstri hornamaðurinn Emil Jakobsen verður að öllu óbreyttu leikmaður Flensburg fram til ársins 2029. Jakobsen kom 23 ára gamall til félagsins frá GOG 2021 og hefur sannarlega slegið í gegn og verið meðal bestu hornamanna þýsku 1. deildarinnar. M.a. hefur Daninn skorað nærri 600 mörk í deildinni.
- Filip Jicha þjálfari THW Kiel segir alltof langt hafa verið gengið þegar ákveðið var að leika á öðrum degi jóla. Hann segir það skoðun sína að leikmenn eigi að vera með fjölskyldum sínum á jóladegi og öðrum degi jóla. Jicha segist skilja að félögin vilji leika í kringum jóladagana vegna þess að margir eru í fríi og aðsókn þar af leiðandi góð. Hinsvegar sé of langt gengið að leika á öðrum degi jóla. Draga verði línu í sandinn, ekki síst vegna þess að heil umferð hafi verið leikin 22. og 23. desember.
- Reiner Baumgart fyrrverandi leikmaður SC Magdeburg og landsliðs Austur Þýskalands lést í fyrradag 69 ára gamall eftir langvarandi veikindi. Baumgart varð m.a. fimm sinnum meistari með SC Magdeburg á tímum Austur Þýsklands og var í sigurliði félagsins í Evrópukeppni félagsliða í tvígang.
- Auglýsing -