- Auglýsing -
- Daníel Þór Ingason og liðsfélagar í Balingen-Weilstetten komust í gærkvöld í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. Balingen-Weilstetten vann Coburg, 38:33, á útivelli í átta liða úrslitum keppninnar í gær. Daníel Þór skoraði ekki mark í leiknum. Balingen verður eina liðið úr næst efstu deild í undanúrslitum bikarkeppninnar þegar bikarhelgin fer fram í 12. og 13. apríl á næsta ári Lanxess-Arena í Köln.
- Þrír síðustu leikir átta liða úrslita þýsku bikarkeppninnar fara fram í kvöld en í öllum tilfellum mætast lið úr efstu deild, Kiel – Gummersbach, Rhein-Neckar Löwen – Eisenach, MT Melsungen – Flensburg.
- Arnór Atlason og leikmenn hans í TTH Holstebro féllu í gær úr leik í átta liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í handknattleik. TTH Holstebro tapaði fyrir Grindsted GIF, 42:41, eftir tvíframlengdan leik á heimavelli Grindsted.
- Áfram halda Óðinn Þór Ríkharðsson og leikmenn Kadetten Schaffhausen að vinna leiki sína svissnesku A-deildinni í handknattleik. Í gær unnu þeir Wacker Thun, 40:31, á útivelli í 19. umferð deildarinnar. Óðinn Þór var markahæstur hjá Kadetten með sjö mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Hann missti einu sinni marks. Kadetten er með 35 stig eftir 19 leiki í efsta sæti deildarinnar.
- Ísak Steinsson einn markvarða 21 árs landsliðsins í handknattleik tapaði með liði sínu, Drammen, í gær í heimsókn til Follo, 34:28, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Ísak náði sér ekki á strik og varði aðeins 2 skot þann tíma sem hann stóð vaktina. Drammen er fallið niður í áttunda sæti deildarinnar eftir að hafa verið ofar fyrir nokkrum umferðum síðan.
- Birta Rún Grétarsdóttir skoraði eitt mark þegar Fjellhammer vann Nordstrand, 28:19, í 12. umferð næst efstu deild norska handknattleiksins í gær. Fjellhammer er efst í deildinni með 23 stig eftir 12 leiki.
- Dana Björg Guðmundsdóttir, landsliðskona, og hennar liðsfélagar í Volda eru í öðru sæti deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki. Volda vann Aker, 30:26, á heimavelli í gær. Dana Björg skoraði sjö mörk og var markahæst hjá Volda.
- Auglýsing -