- Auglýsing -
- Díana Dögg Magnúsdóttir er í liði 10. umferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik hjá tímaritinu Handball-Woche fyrir frammistöðu sína með BSV Sachsen Zwickau gegn Borussia Dortmund en leikurinn fór fram á næst síðasta degi ársins. Díana Dögg átti sannkallaðan stórleik, skoraði átta mörk auk fjögurra stoðsendinga, fimm skapaðra færa, þriggja stolinna bolta og tveggja fiskaðra vítakasta. Hún var einnig valin best í leiknum sem BSV Sachsen Zwickau tapaði með sex marka mun, 31:25.
- Aron Kristjánsson þjálfari landsliðs Barein varð að sætta sig við að hans menn töpuðu fyrir Brasilíu í fyrstu umferð fjögurra liða móts í handknattleik í Frakklandi í gær, 30:28. Mótið er liður í undirbúningi landsliðs Barein fyrir Asíumótið sem hefst eftir rúma viku. Næsti leikur Barein verður við Túnis á morgun. Frakkland vann Túnis í síðari leik mótsins í gær, 35:26.
- Íslenska landsliðið í handknattleik fór af landi brott í morgun og kemur til Linz í Austurríki um miðjan dag. Framundan eru tveir vináttuleikir í Austurríki við landslið heimamanna. Fyrri viðureignin verður á morgun, laugardag, og síðari leikurinn á mánudaginn. Báðir leikir hefjast klukkan 17.10.
- Heimsmeistarar Danmerkur gerðu jafntefli við Noreg í upphafsleik fjögurra liða móts í handknattleik karla í Kaupmannahöfn í gærkvöld, 27:27. Norðmenn sýndu mikla seiglu í leiknum en þeir voru fimm mörkum undir, 26:21, þegar sex mínútur voru til leiksloka. Liðlega 12 þúsund áhorfendur voru viðstaddir leikinn sem fram fór í Royal Arena. Mathias Gidsel og Mikkel Hansen skoruðu sex mörk hvor fyrir danska liðið. Alexander Blonz var markahæstur í norska landsliðinu með sjö mörk. Norska landsliðið hafði tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:13.
- Auglýsing -