- Auglýsing -
- Þýski handknattleiksmaðurinn Paul Drux tilkynnti í fyrradag að hann sé tilneyddur að leggja skóna á hilluna, aðeins 29 ára gamall. Drux, sem er fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands og fyrirliði Füchse Berlin, hefur átt í þrálátum meiðslum í hné um árabil. Endurhæfing hefur ekki borið árangur þrátt fyrir mikla seiglu við æfingar.
- Rastislav Trtík fyrrverandi landsliðsþjálfari Tékklands í handknattleik karla er látinn 63 ára gamall eftir langvarandi alvarleg veikindi. Auk þess að þjálfa landslið Tékklands 2004 til 2005 og aftur frá 2021 til 2022, þjálfaði Trtík félagslið í heimalandinu, auk Þýskalands og Póllands. M.a. var Trtík þjálfari Melsungen þegar liðið vann sér sæti í fyrsta sinn í efstu deild í Þýskalandi fyrir rúmlega 20 árum. Hin síðari ár sneri Trtík sér í meira mæli að þjálfun unglinga.
- Ekki er nóg með að danska handknattleiksliðið Aalborg Håndbold njóti velgengni innan vallar heldur stendur fjárhagur félagsins traustum fótum. Í vikunni kom fram að 14. árið í röð skilaði rekstur félagsins hagnaði. Að þessu sinni var rekstrarhagnaðurinnn 1,1 milljón danskra króna, jafnvirði 23 milljóna íslenskra.
- Í fyrsta sinn í sögu rekstrarfélags Aalborg Håndbold voru áhorfendur á heimaleikjum félagsins fleiri en 150 þúsund. Þess utan lék Aalborg Håndbold í fyrsta sinn til úrslita í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki sem skapaði félaginu talsverðar tekjur.
- Auglýsing -