- Auglýsing -

Molakaffi: Ekki á hrakhólum, óvænt úrslit, bæta ekki við liðum

- Auglýsing -
  • Þýska 1. deildarliðið Bergischer HC verður ekki á hrakhólum með æfingahúsnæði eins og útlit var fyrir á dögunum. Félagið hefur náð samkomulagi við leigusala um áframhaldandi leigu á núverandi húsnæði. Áður hafði slitnað upp úr samningaviðræðum, eins og handbolti.is sagði frá á dögunum.
  • Jörg Föste framkvæmdastjóri Bergischer HC segir í viðtali við Solinger Tageblatt að eins árs samkomulag hafi náðst. Félagsmenn voru þegar byrjaðir að flytja þegar samkomulagið náðist enda rennur fyrri samningur út um mánaðamótin. 
  • Esbjerg gerði óvænt jafntefli við Silkeborg-Voel á heimavelli í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í kvennaflokki í gær, 36:36. Esbjerg hefur verið annað af tveimur stórliðum danska kvennahandknattleiksins undanfarin ár og nánast unnið alla leiki í deildinni að uppgjörum við Odense Håndbold undanskildum. Stórstjarnan norska, Henny Reistad, var ekki í leikmannahópi Esbjerg. Hún er meidd. 
  • Aðeins verða 11 lið í 1. deild kvenna í handknattleik eftir að HB Ludwigsburg dró lið sitt til baka í upphafi vikunni í kjölfar þess að eignarhaldsfélag liðsins sóttu um gjaldþrotaskipti í lok júlí. Haldið verður í upphaflega leikjaniðurröðun með 12 liðum. Þar af leiðandi mun eitt lið sitja yfir í hverri umferð. Úrslitakeppni, sem tekin var upp í vor, heldur áfram. Fjögur efstu liðin mætast um meistaratitilinn en liðin sem hafna í fimmta til ellefta sæti leika um að forðast fall.
  • Í ljósi reynslunnar af gjaldþroti HB Ludwigsburg verður leyfiskerfi deildarinnar styrkt svo að það komi ekki fyrir aftur að lið geti orðið gjaldþrota nokkrum vikum eftir að hafa hlotið keppnisleyfi og sýnt fram á ágætan fjárhag sem reynist síðan orðin tóm þegar á hólminn er komið. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -