- Auglýsing -
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir handknattleikskona ársins 2024 hjá HSÍ og liðsmenn hennar í Aarhus Håndbold gerðu jafntefli við Ringkøbing Håndbold, 32:32, í fyrsta leik liðanna eftir að keppni hófst á ný í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld eftir sjö vikna hlé vegna EM kvenna og síðar jóla. Elín Jóna fékk ekki mörg tækifæri í leiknum í gær vegna þess að stalla hennar í marki Árósarliðsins, Sabine Englert, varði vel. Elín Jóna spreytti sig á að verja tvö vítaköst en tókst ekki að koma í veg fyrir að mark væri skoraði í bæði skipti.
- Aarhus Håndbold er í 10. sæti af 14 liðum dönsku úrvalsdeildarinnar með fimm stig að loknum 10 leikjum. Ringkøbing Håndbold, sem Elín Jóna lék eitt sinn með, rekur lestina með þrjú stig.
- Odense Håndbold er efst í dönsku úrvalsdeildinni með 20 stig að loknum 10 leikjum. Esbjerg og Ikast eru næst á eftir með 18 stig hvort.
- Fredrikstad Bkl., sem Elías Már Halldórsson þjálfar, steinlá í gær fyrir nýkrýndum bikarmeisturum Storhamar, 42:22, á heimavelli í 10. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik kvenna. Fredrikstad Bkl er í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar með fjögur stig.
- Sola situr í efsta sæti deildarinnar með 18 stig eftir 10 leiki. Storhamar og Vipers Kristiansand eru næst á eftir með 16 stig hvort eftir níu leiki.
- Auglýsing -