- Auglýsing -
- Ungur handknattleiksmaður, Haukur Guðmundsson, hefur gengið til liðs við Stjörnuna frá Aftureldingu á lánasamningi, eftir því sem segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild Stjörnunnar. Haukur er vinstri hornamaður og hefur átt sæti í U17 ára landsliðinu.
- Andrea Gunnlaugsdóttir markvörður hefur ákveðið að ganga til liðs við Fram. Hún lék síðast með Val í Olísdeildinni leiktíðina 2020/2021. Andrea er frá Vestmannaeyjum og lék upp yngri flokka og upp í meistaraflokk með ÍBV áður en hún söðlaði um og gekk til liðs við Val. Andrea, er 21 árs, lék með yngri landsliðum Íslands og hefur tvisvar sinnum verið valin í æfingahóp A-landsliðsins.
- Þórunn Ásta Imsland hefur skrifað undir þriggja ára samning við handknattleiksdeild Víkings. Þórunn er markvörður, uppalin í ÍR, og steig sín fyrstu skref með meistaraflokki síðasta vetur. Þórunn mun spila með 3. flokki sem og að vera í markvarða teymi meistaraflokks, segir í tilkynningu Víkings.
- Paulo Pereira landsliðsþjálfari Portúgal í handknattleik karla hefur framlengt samning sinn til tveggja ára við portúgalska handknattleikssambandið. Pereira mun þar með stýra landsliðinu fram yfir heimsmeistaramótið í janúar 2025 sem fram fer í Króatíu, Danmörku og Noregi. Hinn 58 ára gamli Pereira hefur verið landsliðsþjálfari í sjö ár og náð afar góðum árangri. M.a. var portúgalska landsliðið í fyrsta sinn þátttakandi á Ólympíuleikunum í Japan sumarið 2021. Þess er getið í tilkynningu portúgalska handknattleikssambandsins að markmiðið sé að landsliðið verði með á Ólympíuleikunum í París á næsta sumri.
- Hornamaðurinn Pedro Portela hefur samið á ný við Sporting Lissabon eftir fimm ára dvöl hjá Tremblay og Nantes í Frakklandi. Portela, sem er 33 ára gamall, lék með Sporting í 11 ár áður en hann fór til Frakklands.
- Auglýsing -