- Auglýsing -
- Skammt er á milli leikja í handknattleiknum í Sviss eins og víða annarstaðar. Óðinn Þór Ríkharðsson og samherjar í Kadetten Schaffhausen unnu RTV Basel í gær í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar, 41:26, en þeir léku líka á fimmtudagskvöld og þá í deildinni. Framundan er viðureign í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á þriðjudag í Lissabon gegn Benfica. Óðinn Þór skoraði fjögur mörk í bikarleiknum í Basel í gær.
- Tryggvi Þórisson og félagar í IK Sävehof féllu úr leik í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í gær þegar þeir töpuðu fyrir Önnereds, 29:27, í Gautaborg. Jafntefli varð í fyrri viðureigninni, 27:27, en leikið er heima og að heiman sænsku bikarkeppninni, átta og sextán liða úrslitum. Tryggvi var ekki á meðal þeirra sem skoruðu fyrir IK Sävehof í leiknum.
- Daníel Þór Ingason var ekki á meðal leikmanna Balingen–Weilstetten í gær þegar liðið gerði jafntefli á útivelli í við Eintracht Hagen, 32:32, í næst efstu deild þýska handknattleiksins. Þetta var a.m.k. annar leikurinn í röð sem Daníel Þór er fjarverandi. Balingen er í 2. sæti 2. deildar með 15 stig þegar 11 leikir eru að baki.
- Hákon Daði Styrmisson er meiðslalista Hagen-liðsins eftir að hann sleit krossband í vor. Hagen er í næst neðsta sæti 2. deildar með fimm stig að loknum 11 leikjum.
- Stöðuna í þýsku 2. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Rúnar Sigtryggsson þjálfari þýska liðsins Leipzig hefur krækt í sænska handknattleiksmanninn William Bogojevic frá Pick Szeged. Bogojevic er ætlað að koma í stað Matej Klima sem meiddist á dögunum og verður ekki meira með á leiktíðinni. Bogojevic, sem er hægrihandar skytta, gekk til liðs við Pick Szeged í sumar eftir tveggja ára vist hjá Bjerringbro/Silkeborg. Hann hefur hinsvegar ekki verið í burðarhlutverki hjá ungverska liðinu.
- Auglýsing -