- Auglýsing -
- Reynir Stefánsson formaður dómaranefndar HSÍ verður eftirlitsmaður á síðari viðureign IK Sävehof og Malmö í forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik sem fram fer í Partille 6. september. Eins og handbolti.is sagði frá á dögunum dæma Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson fyrri viðureign liðanna sem leikin verður í Malmö á sunnudaginn. Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja tekur sæti í riðlakeppni Evrópudeildar.
- Rúmenska liðið CS Minauer Baia Mare, sem Stjarnan mætir á laugardaginn í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik, tapaði fyrir Dinamo Búkarest, 32:24, í meistarakeppninni í Rúmeníu. Viðureignin var nokkuð jöfn þar til síðustu 10 mínúturnar. Þá tóku leikmenn Dinamo öll völd og unnu öruggan sigur.
- Fyrri viðureign Stjörnunnar og CS Minauer Baia Mare verður ytra en sú síðari í Garðabæ laugardaginn 6. september og hefst klukkan 13. Miðasala á leikinn er hafinn á stubb.is.
- Þýska handknattleiksliðið Bergischer HC, sem Arnór Þór Gunnarsson þjálfar við annan mann, verður á hrakhólum með æfingahúsnæði eftir mánaðamótin eins og staðan er núna. Áframhaldandi leigusamningur hefur ekki náðst um núverandi æfingahúsnæði en samningurinn rennur út 31. ágúst. Hugsanlega verða æfingar liðsins fluttar til Düsseldorf en von um sal kann að vera í Wuppertal.
- Danska handknattleikskonan Christina Pedersen hefur samið við norska úrvalsdeildarliðið Larvik. Pedersen var leyst undan samningi hjá Viborg á föstudaginn eftir að hafa verið á fimmtu viku í æfingabanni. Samherjar hennar í liðinu neituðu að æfa með henni. Ekki tókst að leysa ágreining Pedersen og leikmanna á annan hátt en að segja upp samningnum.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -