- Auglýsing -
- Sigvaldi Björn Guðjónsson fyrirliði Kolstad skoraði fjórum sinnum fyrir liðið í heimsókn til Bækkelaget í gær. Kolstad vann með 10 marka mun, 35:25, og er í efsta sæti með 35 stig eftir 19 umferðir.
- Dagur Gautason skoraði fjögur mörk þegar lið hans ØIF Arendal vann Kristiansand afar örugglega á heimavelli, 33:23, á norsku úrvalsdeildinni í gær. Hafþór Már Vignisson er fjarverandi vegna meiðsla eins og kom fram á handbolti.is fyrir nokkru síðan. Arendal er í þriðja sæti með 27 stig að loknum 19 leikjum.
- Róbert Sigurðarson og félagar í Drammen unnu sætan sigur á Haslum í Nadderud Arena heimavelli Haslum í gær í norsku úrvalsdeildinni, 31:30. Róbert skoraði ekki en lét til sín taka í vörninni. Viktor Petersen Norberg skoraði þrisvar sinnum fyrir Drammen situr í fjórða sæti með 25 stig.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði eitt mark fyrir GC Amicitia Zürich í tveggja marka sigri á SPONO EAGLES, 33:31, á heimavelli í svissnesku A-deildinni í gær. Nú hefur deildarkeppninni verið skipt upp í tvo hluta og var þessi leikur liður í efri hlutanum. GC Amicitia Zürich í fjórða sæti af sex liðum.
- Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk og Dagur Sverrir Kristjánsson eitt þegar lið þeirra Karlskrona tapaði á heimavelli fyrir Guif, 34:31, í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Þorgils Jón Svölu Baldursson skoraði ekki að þessu sinni. Phil Döhler stóð í marki Karlskrona frá upphafi til enda. Hann varði 11 skot, 27%. Karlskrona er sem fyrr í 11. sæti af 14 liðum deildarinnar.
- Bjarki Finnbogason skoraði þrjú mörk fyrir Anderstorps SK í átta marka tapi á heimavelli fyrir HK Torslanda, 33:25, í Allsvenskan, næst efstu deild sænska handknattleiksins í gær. Anderstorps SK er í 10. sæti með 16 stig en aðeins munar þremur stigum á liðinu og því sem rekur lestina en það er Redbergslid sem féll úr úrvalsdeildinni á síðasta vori.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir og samherjar í EH Aalborg töpuðu sínum fyrsta leik í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær í heimsókn til Holstebro. Lokatölur 34:25. EH Aalborg hefur eftir sem áður fimm stiga forskot í efsta sæti með 32 stig eftir 17 leiki. Holstebro er í fjórða sæti sæti með 20 stig.
- Fredrikstad, liðið sem Elías Már Halldórsson þjálfar, er komið upp í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir sigur á Byåsen, 32:30, á útivelli í gær.
- Auglýsing -