- Auglýsing -
- Í gær skoraði Teitur Örn Einarsson sjö mörk fyrir Flensburg annan leikinn í röð þegar liðið vann Kadetten Schaffhasuen 46:32, í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik. Leikið var í Flens-Arena. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fjögur mörk fyrir Kadetten.
- Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem lagði HC Kriens-Luzern, 31:23, í B-riðli Evrópudeildarinnar í gær. Leikið var í Sviss.
- Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í Nantes hófu keppni í Evrópudeildinni af miklum krafti með níu marka sigri á heimavelli á Benfica. Viktor Gísli varði 5 skot, 25%, á þeim tíma sem hann stóð í marki Nantes í fyrri hluta leiksins. Stiven Tobar Valencia skoraði ekki mark fyrir Benfica.
- Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark fyrir sænska liðið Sävehof í átta marka sigri liðsins á spænska liðinu REBI Balonmano Cuenca, 30:22. Leikið var á Spáni.
- Orri Freyr Þorkelsson lék lítið með Sporting þegar liðið burstaði pólska liðið Chrobry Glogow, 37:20, í Lissabon í gær þegar liðin mættust í 1. umferð H-riðils Evrópudeildarinnar. Orri Freyr hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum upp á síðkastið en fékk aðeins að kasta mæðinni að þessu sinni.
- Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason skoruðu ekki mark fyrir Rhein-Neckar Löwen þegar liðið vann Svíþjóðarmeistara IFK Kristianstad, 26:20, í Kristianstad í A-riðli Evrópudeildarinnar. Leikurinn var háður í Kristianstad.
- Svo virðist sem móðursýki hafi gripið um sig meðal fjölmiðlamanna í Noregi vegna ákvörðunar Þóris Hergeirssonar þjálfara heims- og Evrópumeistara að banna leikmönnum að vera með á sjálfumyndum með aðdáendum norska landsliðsins eða að veita eiginhandaráritanir. Þórir er fastur fyrir og lætur ekkert raska ró sinni frekar en fyrri daginn. Hann segist ráða ferðinni enda sitji hann og liðið í súpunni ef margir leikmenn veikjast á meðan á heimsmeistaramótið stendur yfir í lok nóvember og í byrjun desember.
- Auglýsing -