- Auglýsing -
- Þórir Hergeirsson fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik kvenna sagði við VG að hann hafi setið með gleðitár á hvarmi í sófanum heima hjá sér þegar norska landsliðið varð heimsmeistari í gær.
- Þórir stýrði norska landsliðinu til sigurs á þremur heimsmeistaramótum, 2011, 2015 og 2021. Þórir hælir eftirmanni sínum Ole Gustav Gjekstad á hvert reipi. Gjekstad tók við af Þóri fyrir ári síðan. Alls vann norska landsliðið ellefu sinnum gullverðlaun á stórmóti undir stjórn Þóris frá 2009 til og með EM 2024.
- Einar Bragi Aðalsteinsson mætti til leiks á ný með IFK Kristianstad í gær og skoraði sex mörk úr sex skotum þegar liðið vann Hammarby IF HF, 35:27, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í gær. IFK Kristianstad er í öðru sæti deildarinnar með 22 stig eftir 14 leiki, tveimur stigum á eftir Malmö sem er efst.
- Elmar Erlingsson skoraði fjögur mörk úr sex skotum er Nordhorn-Lingen lagði Hüttenberg á útivelli, 28:25, í 2. deild þýska handknattleiksins í gær. Nordhorn-Lingen er áfram í 7. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 14 leiki.
- Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark í tveimur skotum þegar lið hans Chambéry tapaði naumlega fyrir Nîmes, 35:34, í 14. umferð frönsku 1. deildarinnar í handknattleik á laugardagskvöldið. Sveinn lék með í röskar 23 mínútur. Chambéry var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18:14, og stóðst ekki áhlaup Nîmes þegar á leið síðari hálfleik. Chambéry er í 7. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 14 leiki. PSG er efst með 28 stig. Nîmes er í 9. sæti með 13 stig.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -




