- Auglýsing -
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði tvö mörk þegar Alpla Hard vann Linz, 29:23, á heimavelli í gær í 3. umferð austurrísku 1. deildarinnar í handknattleik. Þetta var fyrsti sigur Alpla Hard í deildinni. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard sem situr í fjórða sæti deildarinnar eftir þrjár umferðir með þrjú stig. Þess má geta að Alpla Hard og Linz léku til úrslita um austurríska meistaratitilinn í vor og hafði Linz betur.
- Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum þegar lið hennar, TMS Ringsted, vann Gudme GK, 35:28, á heimavelli í 1. umferð dönsku næst efstu deildar í gærkvöld. Harpa María gekk til liðs við TMS Ringsted í sumar og leikur með liðinu samhliða mastersnámi í iðnaðarverkfræði við DTU-háskólann í Lyngby á Sjálandi.
- Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði fjögur mörk fyrir IFK Kristianstad í níu marka sigri liðsins á Guif, 33:24, á heimavelli í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Leikurinn fór fram í Kristianstad.
- Ólafur Andrés Guðmundsson var næst markahæstur hjá HF Karlskrona með fimm mörk í jafntefli, 30:30, við Amo á heimavelli í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld. Þorgils Jón Svölu Baldursson skoraði tvö mörk og Dagur Sverrir Kristjánsson eitt mark en þeir leika einnig með HF Karlskrona.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fimm mörk fyrir Amo í leiknum í Karlskrona í gær.
- Grétar Ari Guðjónsson og félagar í US Ivry töpuðu á heimavelli í gær fyrir Nimes, 31:28, í frönsku 1. deildinni í handknattleik, 2. umferð. US Ivry hefur þar með tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í deildinni. Tölfræði leiksins lá ekki fyrir snemma í morgun.
- Stöðuna í mörgum deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Auglýsing -