- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson átti einn stórleikinn til viðbótar í marki Nantes í gær þegar Nantes vann Dijon með yfirburðum, 41:22, í frönsku 1. deildinni í handknattleik á heimavelli Dijon. Viktor Gísli varð 15 skot, 44%, átti ekki hvað sístan þátt í stórsigrinum. Nantes færðist upp í annað sæti frönsku 1. deildarinnar með sigrinum eins og sjá má hér.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði níu mörk og var markahæstur leikmanna Kadetten Schaffhausen þegar þeir unnu HSC Kreuzlingen á heimavelli í A-deildinni í Sviss í gær, 34:27. Þrjú marka sinna skoraði Óðinn Þór úr vítaköstum. Kadetten er efst í deildinni eins og sjá má hér.
- Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason fóru með sigurbros á vör frá Hamborg í gær eftir að hafa tekið þátt í því með félögum sínum í Rhein-Neckar Löwen að vinna HSV Hamburg, 36:32, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Ýmir Örn skoraði tvisvar í leiknum en Arnór Snær skoraði ekki mark að þessu sinni. Rhein-Neckar Löwen er í sjötta sæti, rétt á eftir efstu liðunum en fjögur lið hafa sérstöðu í deildinni á tímabilinu.
- Hannover-Burgdorf tapaði í heimsókn til Stuttgart í gær, 32:28, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem situr í sjöunda sæti deildarinnar en stöðuna í þýsku 1. deildinni er að finna hér.
- Arnór Atlason þjálfari TTH Holstebro fagnaði kærkomnum sigri með liði sínu í gær þegar það lagði Ringsted á útivelli, 29:28, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla. Liðin eru á líku róli í deildinni en með sigrinum komst Holstebro upp í áttunda sæti deildarinnar en skjótt geta skipast veður í lofti því mörg lið eru á líku róli í deildinni.
- Liðsmenn Halldórs Jóhanns Sigfússonar í Nordsjælland töpuðu á heimavell fyrir Bjerringbro/Silkeborg sem m.a. hefur danska landsliðsmanninn Rasmus Lauge innan sinna raða. Lokatölur á Sjálandi voru, 32:26, fyrir Bjerringbro/Silkeborg. Nordsjælland er í 11. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.
- Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg tapaði illa fyrir Kolding, 29:24, í Kolding í gær. Fyrir leikinn voru Kolding og Lemvig jöfn að stigum í neðsta sæti deildarinnar. Ribe-Esbjerg var í þriðja sæti en féll niður í fimmta sæti með óvæntu tapi. Elvar Ásgeirsson og Ágúst Elí Björgvinsson stóðu sig vel. Elvar skoraði sex mörk, átti þrjá stoðsendingar og var einu sinni vikið af leikvelli. Ágúst Elí stóð í marki Ribe-Esbjerg um tíma og varði sex skot, 33,3%.
- Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Kolstad komst á ný í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar í karlaflokki í gær eftir stórsigur á Bækkelaget, 42:24, í Þrándheimi. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fjögur mörk fyrir Kolstad sem hefur 21 stig eftir 12 leiki en litlu munar í stigum á liðunum í efstu fimm sætunum eins og sjá má m.a. hér þar sem stöðuna er að finna.
- Birta Rún Grétarsdóttir var í leikmannahópi Fjellhammer sem tapaði á heimavelli fyrir Flint Tønsberg, 34:31, í næst efstu deild norska handknattleiksins í gær. Birta Rún skoraði ekki mark í leiknum. Fjellhammer er í sjötta sæti með 10 stig í 10 leikjum.
- Örn Vésteinsson Östenberg og félagar í VfL Lübeck-Schwartau unnu TuS N-Lübbecke, 29:25, á útivelli í næst efstu deild þýska handknattleiksins í gær. Örn skoraði ekki að þessu sinni gegn sínum fyrrverandi samherjum en hann lék með TuS N-Lübbecke á síðari hluta síðasta tímabils. VfL Lübeck-Schwartau er í 12. sæti 2. deildar af 18 liðum eins og sjá má hér.
- Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk fyrir Telekom Veszprém á Fejér-B.Á.L. Veszprém, 54:27, í ungversku 1. deildinni í gær. Ljóst er að mikill munur er á getu Veszprémliðanna Telekom Veszprém er efst og taplaust í deildinni.
- Haukur Þrastarson skoraði fimm sinnum fyrir Industria Kielce í öruggum sigri liðsina á KGHM Chrobry Głogów, 38:28, á útivelli í pólsku úrvalsdeildinni í gær. Sagt var frá því í gær að Haukur var valinn í úrvalsliði 9. umferðar Meistaradeildar karla eftir leiki síðustu viku.
- Stöðuna í pólsku, ungversku deildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
- Auglýsing -