Skiljanlega var kátt á hjalla þegar FH-ingar unnu Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í 17. skipti í gærkvöld. FH lagði Aftureldingu í þrjú skipti í fjórum viðureignum úrslitarimmunnar. Smiðshöggið var rekið að Varmá með fjögurra marka sigri í gærkvöld, 31:27. Í leikslok tók fyrirliði FH, Aron Pálmarsson, við Íslandsbikarnum í fyrsta inn á ferlinum.
Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitilinn FH í handknattleik karla í 13 ár. FH varð einnig deildarmeistari í Olísdeildinni í vor.
Sigursteinn og Sigurgeir með fyrir 25 árum
Til fróðleiks og upprifjunar hefur Afturelding einu sinnn unnið Íslandsmeistaratitilinn, fyrir 25 árum, eftir að hafa unnið FH, 3:1, í leikjum talið. Aftureldingarmenn tóku við Íslandsbikarnum í Kaplakrika. Sigursteinn Arndal, núverandi þjálfari Íslandsmeistara FH var þá táningur í leikmannahópi FH ásamt fleirum, þar á meðal Sigurgeiri Árna Ægissyni framkvæmdastjóra handknattleiksdeildar FH.
Jói Long ljósmyndari fylgdi að sjálfsögðu sínu liði eftir í Mosfellsbæ í gær. Hann sendi handbolta.is margar myndir og fylgja nokkrar þeirra hér fyrir neðan.
Handbolti.is óskar Jóa Long og öðrum FH-ingum innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.
(Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri).
Sjá einnig:
FH er Íslandsmeistari – 17. Íslandsmeistaratitillinn í karlaflokki
Þessum titli fylgir meiri gæsahúð af því að þetta er FH
Reyndum allt til þess að koma böndum á Aron