Dragan Nachevski fyrrverandi stjórnarmaður í Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, og formaður dómaranefndar hefur verið dæmdur í tveggja ára bann frá öllum afskiptum af viðburðum á vegum EHF. Einnig hefur honum verið gert að greiða 5.000 evrur í sekt, jafnvirði um 750 þúsund króna.
Nachevski var tímabundið vikið frá öllum störfum hjá EHF síðasta vor eftir að TV2 í Danmörku sýndi þætti um meinta hagræðingu úrslita í handknattleik í Evrópu.
Í þáttunum, sem nefnast Mistænkeligt spil, var m.a. birt upptaka af fundi Nachevski og manns á vegum TV2 sem var í dulargervi. Sá reyndi að fá Nachevski til samstarfs um hagræðingu úrslita. Þótt Nachevski hafi neitað að vinna með manninum þá láðist honum að tilkynna um boðið til EHF eins og honum bar skylda til. Fyrir það er Nachevski m.a. refsað að þessu sinni.
Til frádráttar á banninu koma þeir mánuðir sem liðnir eru síðan Nachevski var sendur í leyfi frá störfum innan EHF.
Í tilkynningu EHF kemur fram að hugsanlega séu ekki öll kurl komin til grafar. Enn stendur yfir rannsókn á ýmsum öðrum ásökunum sem voru settar fram gegn Nachevski í fyrrgreindum þáttum.
Eftir að Nachevski var settur út í kuldann hjá EHF meinaði Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, honum einnig afskipti af viðburðum á þess vegum. Nachevski var einnig orðinn frekur til fjörsins í afskiptum af dómaramálum innan IHF.