Norska kvennalandsliðið verður með regnbogarönd neðst á ermum á keppnistreyjum sínum á Evrópumótinu sem hefst á fimmtudaginn í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi. Einnig verða litirnir notaðir framan á treyjunum. Í samvinnu við íþróttavöruframleiðandann Hummel hefur regnboganum verið komið fyrir á smekklegan hátt. Búningur karlalandsliðsins verður eins skreyttur þegar liðið tekur þátt í heimsmeistaramótinu í janúar.
Alþjóða handknattleikssambandið og Handknattleikssamband Evrópu hafa lagt blessun sína yfir útlit búninganna með regnboganum. Fram kemur í tilkynningu frá norska handknattleikssambandinu að allt frá því að Bjarte Myrhol, þáverandi fyrirliða, var meinað að vera með regnbogann á fyrirliðabandi sínu á Evrópumótinu 2016 hafi sambandið unnið að því að koma regnboganum og litum hans inn í búning landsliðanna. Það hafi tekið sinn tíma en loksins hafi smekkleg lausn fundist sem allir séu sáttir við.
Norska sambandið vill með notkun regnbogans á búningunum fagna fjölbreytileikanum, leggja áherslu á að öll séum við jöfn, óháð kynhneigð, litarhafti eða tungumáli.
Ekki látið þar við standa
Til stendur að regnboganum verði komið fyrir á öðrum íþróttafatnaði sem norsku landsliðin í handknattleik nota í æfingum, keppni og á ferðalögum.