Hinn þrautreyndi handknattleiksmaður Oddur Gretarsson verður yfirþjálfari yngri flokka handknattleiksdeildar Þórs auk þess að þjálfa 7. flokk karla og 8. flokk karla og kvenna hjá félaginu. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.
Oddur flutti heim í sumar og gekk til liðs við uppeldisfélag sitt á Akureyri að lokinni 11 ára veru í Þýskalandi þar sem hann lék með TV Emsdetten og Balingen-Weilstetten í tveimur efstu deildum þýska handknattleiksins. Einnig lék Oddur um árabil með landsliðinu og tók m.a. þátt í HM 2011 og 2021 og EM 2012.
Oddur kemur með mikla og mikilvæga reynslu inn í starf yngri flokka Þórs.
Samhliða þjálfun hjá Þór verður Oddur leikmaður meistaraflokksliðs félagsins eins og áður hefur verið greint frá. Fyrsti leikur Þórs í Grill 66-deild karla verður við Víking í Safamýri á föstudaginn kl. 18.