„Óðinn Þór hefur gæðin til þess að komast í allra fremstu röð,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson fráfarandi þjálfari svissneska meistaraliðsins Kadetten Schaffhausen í samtali við handbolta.is spurður um Óðin Þór Ríkharðsson sem fór á kostum á sínu fyrsta keppnistímabili með liðinu. Óðinn Þór varð markahæstur í Evrópudeildinni og á meðal markahæstu manna í svissnesku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að hafa misst nærri tvo fyrstu mánuðina úr vegna ristarbrots nemma í september.
„Það var einstaklega gaman að vinna með Óðni Þór á síðasta tímabili. Hann er frábær náungi og þau bæði tvö, Óðinn og kærastan. Ég er viss um að við eigum eftir að fylgjast með honum á öðrum vígstöðvum en hjá Kadetten Schaffhausen í framtíðinni. Óðinn hefur allt til þess að bera til að ná mjög langt. Hann er duglegur að æfa og hugsa vel um sig. Um leið er skottæknin frábær. Segja má að hann hafi allt sem góðan hornamann þarf að prýða, hefur mikið gott markanef og er um leið mátulega kærulaus,“ sagði Aðalsteinn og bætir við:
Á bara eftir að verða betri
„Óðinn Þór er frábær leikmaður sem á bara eftir að verða betri,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson en leiðir hans og Óðins Þórs skilja í sumar. Aðalsteinn flytur til Þýskalands og tekur við þjálfun GWD Minden en Óðinn Þór er samningsbundinn Kadetten Schaffhausen fram til ársins 2027.