- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL Í 50 ÁR:​​​​​ Benedikt flutti gleðifréttir frá Madrid

Þegar komið var heim eftir forkeppni ÓL í mars 1972 var tekið var á móti landsliðshópnum með blómvöndum á Keflavíkurflugvelli. Frá vinstri: Gunnsteinn Skúlason, Sigfús Guðmundsson, Hjalti Einarsson fyrir aftan hann, Hjörleifur Þórðarson, Ólafur H. Jónsson, Gísli Blöndal, Ólafur Benediktsson, Valgeir Ársælsson, formaður HSÍ, Rúnar Bjarnason, varaformaður HSÍ og alalfararstjóri fyrir aftan hann, Einar Þ. Mathiesen.
- Auglýsing -

Í dag 24. ágúst 2022 eru 50 ár liðin frá því að landsliðshópur Íslands í handknattleik mætti í ólympíuþorpið í München í Þýskalandi til að taka þátt í fyrsta skipti á Ólympíuleikum, sem fram fóru í München 26. ágúst til 10. september 1972. Þá var keppt í handknattleik öðru sinni í sögu ÓL. Fyrst var keppt í Berlín í Þýskalandi 1936.

Einnig vill svo skemmtilega til að í dag eru 14 ár liðin frá því að íslenska landsliðið vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking.

Undirritaður varð við ósk Ívars Benediktssonar, Handbolta.is, að skrifa um upphafið á Ólympíuþátttöku Íslands. Hér kemur fyrsti pistillinn af þremur um Ólympíuleikana í München, undirbúning og undankeppnina á Spáni. Næsta grein verður birt 27. ágúst og sú þriðja og síðasta 30. ágúst

Samþykkti í október 1965

 Það var Benedikt Guðjónsson Waage, heiðursforseti Íþróttasambands Íslands, sem tilkynnti við komu til Reykjavíkur í október 1965 að búið var að ákveða að ein vinsælasta íþróttagrein Íslands, handknattleikur, væri orðin Ólympíugrein og keppt yrði í handknattleik karla á Ólympíuleikunum 1972.

Benedikt G. Waage heiðurforseti ÍSÍ og eini Íslendingurinn sem setið hefur í Alþjóðaólympíunefndinni.

 Benedikt G. Waage, sem var kjörinn í Alþjóðlegu Ólympíunefndina, IOC, sem fulltrúi Íslands 1946 í Kaupmannahöfn, kom heim frá Madrid á Spáni með þessar gleði fréttir, en hann sat þar 63. þing Alþjóða Ólympíunefndarinnar. Þar var samþykkt að handknattleikur, júdó og bogfimi yrðu teknar inn sem ólympíuíþróttir 1972. Benedikt sagði að handknattleiksmenn fögnuðu þessum tímamótum, þar sem loksins væri handknattleikur orðin ólympíugrein. „Hér er um að ræða íþróttagrein sem hefur náð miklum vinsældum á Íslandi undanfarin ár og er í stöðugri sókn,“ sagði Benedikt við heimkomuna frá Madrid.

 Keppt var í ellefu manna handknattleik úti; á knattspyrnuvelli, á Ólympíuleikunum í Berlín 1936, þar sem Þjóðverjar fögnuðu yfirburðar sigri í keppni sex þjóða; Þýskaland, Austurríki, Sviss, Ungverjaland, Rúmenía og Bandaríkin.

 Á Ólympíuleikunum í Helsinki í Finnlandi 1952 var handknattleikur kynningaíþrótt og léku Svíar og Danir sýningaleik. Leikinn var sjö manna handknattleikur innanhúss og fóru Svíar með sigur af hólmi, 19:11 (8:5). Leikurinn var ekki skráður sem opinber landsleikur hjá Dönum og Svíum, þar sem um sýningaleik var að ræða.

 Eftir ÓL í Helsinki komu upp sterkar umræður um hvort ekki væri rétt að keppa í handknattleik á nýjan leik á Ólympíuleikjum en það var ekki fyrr en 1972 á Ólympíuleikunum í München, að draumur handknattleiksmanna rættist.

 Þegar endanlega var ákveðið í byrjun árs 1970 að 16 þjóðir tækju þátt í ÓL í München, var ákveðið að sjö efstu þjóðirnar í heimsmeistarakeppninni í Frakklandi 1970 tryggðu sér farseðil til München; átta efstu ef Vestur-Þjóðverjar væru í einu af sjö efstu sætunum, en efstu átta þjóðirnar á HM voru; Rúmenía, Austur-Þýskaland, Júgóslavía, Danmörk, Vestur-Þýskaland, Svíþjóð, Tékkóslóvakía og Ungverjaland. Við bættust þrjár þjóðir frá Ameríku (Bandaríkin), Asíu (Japan) og Afríku (Túnis).

Liðið sem lagði Búlgara og Pólverja að velli á Spáni og tryggði Íslandi farseðil á ÓL í München. Stefán Gunnarsson, Jón Hjaltalín Magnússon, Gísli Blöndal, Ólafur H. Jónsson, Geir Hallsteinsson, Viðar Símonarson, Sigurbergur Sigsteinsson, Stefán Jónsson, Björgvin Björgvinsson, Birgir Finnbogason, Hjalti Einarsson og Gunnsteinn Skúlason, fyrirliði.

 Keppt um 5. sæti á Spáni

 Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, ákvað að keppt yrði um fimm sæti í sérstakri undankeppni ÓL, sem færi fram á Spáni í mars 1972. Dregið var í fjóra riðla í Madrid í september 1970. Tvær efstu þjóðirnar í hverjum riðli færu áfram í tvo milliriðla, en síðan myndu þjóðirnar í riðlunum keppa um sæti; sigurvegarar um gullið, þjóðirnar í öðru sæti um bronsið og þjóðirnar í þriðja sæti um fimmta sætið, sem gaf farseðil til München.

Riðlarnir voru skipaðir þessum þjóðum:

A-riðill: Ísland, Noregur, Finnland, Belgía.
B-riðill: Frakkland, Austurríki, Búlgaría, Holland.
* Tvær efstu þjóðirnar úr þessum riðlum færu saman í milliriðil.
C-riðill: Sviss, Spánn, Lúxemborg, England.
D-riðill: Sovétríkin, Pólland, Portúgal, Ítalía.
* Fyrir keppnina var reiknað með að þjóðirnar þrjár frá austur-Evrópu; Sovétríkin, Pólland og Búlgaría
myndu komast á ÓL, en um hin tvö sætin kepptu; Ísland, Noregur, Frakkland og Spánn.
Ólafur H. Jónsson skorar í leik gegn Júgóslavíu í Laugardalshöllinni í desember 1971. Sigurbergur Sigsteinsson er úti á vellinum.

 Hjalti lokaði markinu – einnig Óli-ver!

 Það voru greinileg kynslóðaskipti í herbúðum landsliðsins, þegar átján leikmenn voru valdir til að glíma við heimsmeistarana frá Rúmeníu í febrúar 1971. Aðeins átta leikmenn sem léku í HM í Frakklandi 1970 voru í hópnum, en Ísland hafnaði í ellefta sæti á HM. Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari, skipaði Ólaf H. Jónsson, Val, sem fyrirliða og ungir nýliðar fengu tækifæri, eins og Stefán Gunnarsson, Val, sem var fyrirliði unglingalandsliðsins sem varð Norðurlandameistari, NM, 1970 í Finnlandi, Axel Axelsson, Fram, sem varð markakóngur á NM og Ólafur Benediktsson, Val, sem var annar markvörður á NM.

Hjalti Einarsson, markvörður, var Íþróttamaður ársins 1971.

 Það voru aðeins leiknir 6 landsleikir 1971. Hjalti Einarsson, FH, fór á kostum í markinu gegn Rúmeníu, er hann lék sinn 50. landsleik, en hann varð fyrstur til að ná þeim áfanga. Rúmenar voru yfir 14:9 þegar 18. mín. voru til leiksloka. Þá lokaði Hjalti markinu, varði sex skot og Íslendingar náðu að jafna 14:14 en höfðu síðan ekki heppnina með sér til að skora sigurmark, er Ólafur H. og Geir Hallsteinsson, FH, komust á auðan sjó inn á línu, en Pena, markvörður, sá við þeim. Markvarsla Hjalta dugði honum til að vera kjörinn Íþróttamaður ársins 1971 hjá Samtökum íþróttafréttamanna.

Ólafur Benediktsson, nýliði, fór á kostum í markinu gegn Dönum, 15:12.

 Ólafur Ben tók stöðu Hjalta í markinu í leik gegn Dönum í mars og kom, sá og sigraði. Varði meðal annars þrjú vítaköst og var maðurinn sem skóp sigur, 15:12. Jafnteflið gegn Rúmeníu og sigurinn á Dönum byggðust á sterkum varnarleik og markvörslu. Ólafur kom sterkur inn í markið og fékk viðurnefndið „Óli-ver!“ en það var orðið sem Jón Ásgeirsson, útvarpsmaður hjá RÚV, hrópaði hvað eftir annað upp í útvarpslýsingu frá leiknum, þegar Óli varði.

 Það sýndi best hvað landsliðið var ungt, að aldursforsetinn í leikjunum gegn Dönum var Viðar Símonarson, 25 ára.

 Kennslustund í Laugardalnum

 Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari, og leikmennn hans vöknuðu upp við vondan draum þegar öflugt lið Júgóslavíu kom í heimsókn til Reykjavíkur í nóvember og tóku landsliðsmenn Íslands í tvær kennslustundir – léku þá sundur og saman í Laugardalshöllinni, 20:11 og 22:15. Júgóslavar voru með sýnikennslu, snöggar hreyfingar í vörn og hraðaupphlaup, sem voru ekki þekkt. Fróðir menn töldu að lið Júgóslava væri besta landslið sem hafi komið til Íslands. Hjá þeim léku þeir Lavrnic, Pokrajac, Horvat og Lazarevic aðalhlutverkið.

Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari.

 Handknattleikssamband Íslands hefði „jafnvel getað“ fetað í fótspor Svía og Dana á ÓL í Helsinki 1952, að skrá leikina ekki sem landsleiki, þar sem Júgóslavar buðu upp á „sýningaleiki.“ 

 Eftir leikina gegn Júgóslavíu voru mönnum ljóst, að stórátak þyrfti að gera, ef Ísland ætti að geta tryggt sér ÓL-farseðil á Spáni. Það var ekki mikill tími til stefnu og aðeins yrðu leiknir tveir landsleikir fyrir Spánarförina. Gegn Tékkóslóvakíu í Laugardalshöllinni 7. og 8. janúar 1972.

 Æft daglega

 Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari og landsliðsnefndar mennirnir Jón Erlendsson og Hjörleifur Þórðarson ákváðu að landsliðið yrði kallað saman á annan í jólum, 26. desember og æft yrði daglega fram að leikjunum gegn Tékkum, nema á nýársdag. Hér var um að ræða 11 daga í beit.

20 leikmenn voru kallaðir til æfinga:
Valur (6): Ólafur Benediktsson, markvörður, Ágúst Ögmundsson, Gísli Blöndal, Gunnsteinn Skúlason, Ólafur H. Jónsson, Stefán Gunnarsson.
FH (5): Birgir Finnbogason, Hjalti Einarsson, báðir markverðir, Auðunn Óskarsson, Geir Hallsteinsson, Víðar Símonarson. 
Fram (4): Guðjón Erlendsson, markvörður, Axel Axelsson, Björgvin Björgvin Björgvinsson, Sigurbergur Sigsteinsson.
Víkingur (3): Georg Gunnarsson, Páll Björgvinsson, Sigfús Guðmundsson.
Lugi (1): Jón Hjaltalín Magnússon.
Haukar (1): Stefán Jónsson.

 Æfingarnar skiluðu árangri, þjöppuðu leikmönnum saman. Fyrri leikurinn gegn Tékkum endaði með jafntefli 12:12. Sigurbergur skoraði tvö síðustu mörk Íslands við mikinn fögnuð áhorfenda, en Tékkar jöfnuðu jafn óðum. Í seinna skiptið þegar 7 mín. voru til leiksloka, en eftir það kom ekki mark.

 Sigur vannst í seinni leiknum, 14:13, eftir að Ísland var undir 12:13 þegar níu. mín. voru eftir. Stefán Jónsson jafnaði og Axel skoraði sigurmarkið tveimur mín. fyrir leikslok.

 Ólafur H. gat ekki leikið fyrri leikinn gegn Tékkum og tók Gunnsteinn við fyrirliðabandinu og hélt því þó að Ólafur kæmi inn í seinni leikinn.

 Hilmar valdi sextán leikmenn til ferðarinnar til Spánar, til að tryggja Íslandi farseðilinn til ÓL í München. „Við höfum þegar gert áætlun um framhaldið,“ sagði Hilmar, sem var bjartsýnn fyrir keppnina á Spáni. Ísland lék í riðli með Finnlandi, Noregi og Belgíu í Bilbao.

 Reiðarslag í Bilbao!…

…var fyrirsögnin í Morgunblaðinu, eftir að Ísland og Finnland höfðu gert jafntefli, 10:10, í fyrsta leiknum í Bilbao 15. mars. Staðan var; Já, haldið ykkur! 5:2 í leikhléi og náðu Finnar síðan að jafna 5:5 og komast yfir, 7:9, þegar 12 mín. voru til leiksloka. Íslendingar jöfnuðu og Gunnsteinn skoraði 10:9 þegar fjórar mín. voru til leiksloka. Finnar náðu að jafna þegar nokkrar sek. voru eftir, eftir ótrúlega framgöngu dómara leiksins, sem komu frá Júgóslavíu.

 „Taugastríð reyndist okkar mönnum ofviða,“ sagði Jón Erlendsson, formaður landsliðsnefndar. „Við vorum klaufar í sókn, áttum þetta tíu til fimmtán stangarskot,“ sagði Geir Hallsteinsson, sem skoraði helming marka Íslands, 5/1!

 Samleikur Geirs og Axels var frábær, þegar auðveldur sigur vannst á Belgíu, 31:10. Þeir skoruðu samtals 21 mark; Geir 12/7, Axel 9 mörk. Norðmenn áttu ekki í vandræðum með Finna, 22:9.

  Gunnsteinn var hetjan í leiknum gegn Noregi, 14:14. Hann skoraði jöfnunarmarkið 17 sek. fyrir leikslok, eftir að Sigurbergur hafði stolið knettinum frá Norðmönnum. Gunnsteinn vippaði knettinum yfir markvörð Norðmanna.

 Liðsheildin var góð; bestir voru Hjalti, Geir og Gunnsteinn, sem skoraði 4 mörk eins og Ólafur H. Geir var með 3 mörk, Axel tvö, Björgvin og Sigurbergur eitt hvor.

 Ísland komst í milliriðil í San Sebastian ásamt Noregi, Austurríki og Búlgaríu.

Boðið upp á „bíó!“

 HSÍ bauð leikmönnum upp á „bíó“ á Spáni. Sambandið festi kaup á myndupptökutæki og voru menn sendir til að taka upp leiki mótherja Íslands í milliriðlinum; Austurríki og Búlgaríu. Þetta var í fyrsta skipti sem HSÍ notfærði sér myndbandsupptökutækni. „Þetta myndsegulband hefur komið okkur að ómetanlegu gagni,“ sagði Hilmar.

Gísli Blöndal skorar í leik gegn Rúmeníu, 14:14.

 Gísli Blöndal skoraði sjö mörk þegar Ísland vann Austurríki, 25:19. Gísli meiddist á ökkla í leiknum og fékk hann hjálp hjá lækni norska landsliðsins. Axel meiddist; liðband slitnaði á fæti og var fóturinn settur í gifs. Þetta sýndi að það er rétt að vera með lækni í ferð, þegar leikið er á stórmótum.

Axel Axelsson, nýliði.

 Norðmenn lögðu Búlgaríu að velli 19:9 og voru Norðmenn og Íslendingar jafnir að stigum, með nákvæmlega sama markamun, en Íslendingar voru búnir að skora fleiri mörk og voru því í fyrsta sætinu.

 Norðmenn lögðu Austurríkismenn að velli 19:9, þannig að Íslendingar urðu að vinna Búlgara með tíu marka mun, til að komast í úrslitaleikinn gegn Sovétmönnum.

  Táp og fjör og …

 Mikil spenna var undir lok leiksins við Búlgaríu, þegar staðan var 19:10. Íslendingar fengu tvisvar tækifæri til að skora tuttugasta markið, en þeim brást bogalistin.

 En farseðilinn á ÓL í München var í höfn og braust út mikil gleði hjá leikmönnum og hjá almenningi á Íslandi. Strax eftir útvarpslýsingu Jóns Ásgeirssonar frá leiknum, var plötu skellt á fóninn hjá Ríkisútvarpinu við Skúlagötu og ómaði sænskt þjóðlag við texta Gríms Thomsen:

 Táp og fjör og frískir menn

 finnast hér á landi enn,

 þéttir á velli og léttir í lund,

 þrautgóðir á raunastund. ….

 Góðir straumar frá Madrid

 Íslendingar léku við Pólverja um bronssæti og náðu að leggja þá að velli í Madrid, 21:19. „Þetta er sennilega besti leikur okkar,“ sagði Hilmar, landsliðsþjálfari. Árangur „strákanna okkar“ var glæsilegur. Íslenska liðið lék sex leiki á Spáni; fagnaði fjórum sigrum, gerði tvö jafntefli. Markatalan var 120 mörk, gegn 82.

Axel Axelsson og Viðar Símonarson á frídegi í München.

 Mörkin gegn Pólverjum skoruðu Viðar 6, Geir 6/3, Stefán Jónsson 2, Ólafur H. Jónsson 2, Björgvin 2, Sigurbergur 2, Gísli 1.

 Íslendingum höfðu borist þrisvar sinnum góðir straumar frá Madrid:
 1965: Samþykkt var að handknattleikur yrði Ólympíuíþrótt 1972.
 1970: Ísland dróst í riðil með Noregi, Finnlandi og Belgíu.
 1972: Ísland tryggði sér keppnisrétt á ÓL í München.

 * Sovétmenn lögðu Norðmenn í leiknum um fyrsta sætið, 15:14 og Spánverjar urðu í fimmta sæti, eftir sigur á Búlgaríu, 18:15.

 * Síðustu Ólympíusætin fengu Sovétríkin, Noregur, Ísland, Pólland og Spánn.

 Þeir léku á Spáni:

Leikmennleikirmörk
Markverðir:
Birgir Finnbogason60
Hjalti Einarsson40
Ólafur Bendiktsson20
Aðrir leikmenn:
Geir Hallsteinsson638
Ólafur H. Jónsson615
Gunnsteinn Skúlason610– fyrirliði
Viðar Símonarson610
Björgvin Björgvinsson67
Sigurbergur Sigsteinsson67
Stefán Gunnarsson51
Gísli Blöndal410
Stefán Jónsson42
Axel Axelsson415
Ágúst Ögmundsson33
Jón Hjaltalín Magnússon32
Sigfús Guðmundsson10

Tekið var á móti landsliðshópnum með blómvöndum á Keflavíkurflugvelli. Frá vinstri: Gunnsteinn Skúlason, Sigfús Guðmundsson, Hjalti Einarsson fyrir aftan hann, Hjörleifur Þórðarson, Ólafur H. Jónsson, Gísli Blöndal, Ólafur Benediktsson, Valgeir Ársælsson, formaður HSÍ, Rúnar Bjarnason, varaformaður HSÍ og alalfararstjóri fyrir aftan hann, Einar Þ. Mathiesen.

 Blómvendir í Keflavík

 Þegar landsliðið kom heim til Íslands eftir hina frækilegu ferð til Spánar var tekið vel á móti liðinu á Keflavíkurflugvelli við heimkomu. Leikmenn, þjálfari og fararstjórar fengu blómvendi frá HSÍ. Þá lyftu leikmenn bikar á loft, sem þeir fengu fyrir þriðja sætið. Valgeir Ársælsson, formaður HSÍ, bauð Spánarfarana velkomna heim með stuttri ræðu, þegar þeir komu úr flugvélinni.

NÆST:

 Ég mun í næsta pistli, sem birtist 27. ágúst, segja frá lokaundirbúningi íslenska landsliðsins fyrir München-ferðina á ÓL, undirbúningsferð til Noregs og Vestur-Þýskalands, heimsókn Bandaríkjamanna sem voru einnig að búa sig undir Ólympíuleikana. 

Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

GREIN 2: ÓL Í 50 ÁR: Hjalti gaf sjóvettlinga og Geir með handleggi á „kúluliðum“!​​​​​

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -