Þegar handknattleikskeppni karla hefst á Ólympíuleikunum í París á morgun skráir franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic nafn sitt í enn eitt skiptið á spjöld handknattleikssögunnar. Hann verður fyrsti handknattleikskarlinn til þess að taka þátt í sex Ólympíuleikum. Um leið verður þetta 27. stórmótið sem Karabatic tekur þátt í á ferlinum.
Leikjahæstu handknattleikskarlar ÓL:
Nikola Karabatic: 38 leikir.
Michaël Guigou: 35 leikir.
Andrey Lavrov: 35 leikir.
Daniel Narcisse: 32 leikir.
Didier Dinart: 32 leikir.
Thierry Omeyer: 32 leikir.
- Allir franskir nema Lavrov.
Karabatic, sem stendur á fertugu, hefur aðeins misst af einu stórmóti með franska landsliðinu frá því fyrsta, 2003.
Af stórmótunum 27 hefur Karabatic unnið 18 verðlaunapeninga með samherjum sínum í franska landsliðinu, þar af 11 sinnum gullverðlaun. M.a.eru þrenn gullverðlaun frá Ólympíuleikum, 2008, 2012 og 2021.
Áfram heldur Karabatic einnig við að bæta leikjamet sitt á Ólympíuleikum. Hann er sá leikmaður sem á að baki flesta handboltaleiki í karlaflokki á Ólympíuleikum, 38. Næstir á eftir er landi Karabatic, Michaël Guigou, og Rússinn Andrey Lavrov með 35 leiki hvor. Báðir hafa þeir lagt skóna á hilluna. Af leikmönnum sem taka þátt í leikunum í París er Daninn Mikkel Hansen með 29 leiki.
Hansen er að taka þátt í Ólympíuleikum í fimmta sinn og kemst þar með í hóp með Guigou, Lavrov og Kyung-shin Yoon frá Suður Kóreu. Hansen var fyrst með danska landsliðinu á Ólympíuleikunum 2008 í Bejing eins og norski markvörðurinn Katrine Lunde sem einnig er með á sínum fimmtu leikum.
Karabatic og Hansen eiga það sameiginlegt að leggja skóna á hilluna góðu að loknum Ólympíuleikunum.
Þeir leikjahæstu sem taka þátt að þessu sinni:
Nikola Karabatic: 38 leikir.
Mikkel Hansen: 29 leikir.
Domagoj Duvnjak: 22 leikir.
Niklas Landin: 22 leikir.
Valentin Porte: 16 leikir.
ÓL24: handbolti karla, leikir, úrslit, staðan