Ekkert verður af því að Rúmeninn Viorel Bosca taki upp þráðinn með handknattleiksliði Þórs á Akureyri á nýjan leik í Olísdeild karla hvenær sem keppni hefst aftur. Bosca hefur samið um starfslok sín hjá Þór eftir að hafa meiðst á nára. Hann fór af landi brott í gær. Fréttavefurinn akureyri.net greinir frá þessu í dag.
Meiðsli Bosca eru svo slæm að hann verður lengi frá keppni af þeim sökum. Þar af leiðandi var það metið að best væri fyrir báða aðila að leiðir skildu.
Bosca, sem er örvhent skytta, kom til Þórs rétt áður en sett var á æfinga-, og keppnisbann í byrjun október. Hann náði einum leik með Þórsurum gegn ÍBV og skoraði tvö mörk í sjö skotum.
Óvíst er hvort og þá hvernig forsvarsmenn Þórs munu fylla skarðið sem Bosca skilur eftir sig en Þór vantar sárlega örvhenta skyttu.